Skúli í Subway ákærður af héraðssaksóknara

Skúli Gunnar Sigfússon, eigandi Subway á Íslandi.
Skúli Gunnar Sigfússon, eigandi Subway á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skúli Gunnar Sigfússon, sem jafnan er kenndur við Subway, hefur ásamt tveimur af stjórnendum fyrirtækja sinna verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir að millifæra fjármuni af bankareikningum félagsins EK1923 ehf. og rýra efnahag þess í aðdraganda þess að félagið var úrskurðað gjaldþrota.

Auk Skúla eru þeir Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjöstjörnunnar og Guðmundur Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Stjörnunnar, ákærðir. Bæði félögin eru í eigu Skúla.

Ákæran snýst um tvær millifærslur og eitt framsal á kröfu sem áttu sér stað frá janúar 2016 fram til ágúst sama ár, en gerð var krafa um gjaldþrotaskipti 9. maí 2016 og úrskurðað um gjaldþrotaskipti 7. september sama ár. Segir í ákærunni, sem mbl.is hefur undir höndum, að millifærslurnar hafi verið til þess fallnar að rýra efnahag félagsins.

Fyrst er um að ræða 21,3 milljóna millifærslu inn á reikning Sjöstjörnunnar í mars 2016. Eru Skúli og Guðmundur Hjaltason ákærðir fyrir að hafa í sameiningu látið millifæra upphæðina. Óskaði Guðmundur eftir millifærslunni og staðfesti Skúli hana við starfsmann banka.

Næsti liður ákærunnar nær til framsals á kröfu á hendur ríkinu sem EK1923 átti vegna úthlutunar á tollkvóta, en var framseld til Stjörnunnar. Var heildarupphæð kröfunnar 24,6 milljónir auk vaxta. Var framsalið undirritað af Skúla og Guðmundi Sigurðssyni, en í ákærunni kemur fram að ekkert endurgjald hafi komið fyrir. Ríkið féllst hins vegar aðeins á hluta kröfunnar og greiddi Stjörnunni 14,7 milljónir.

Að lokum er ákært fyrir greiðslur frá EK1923 þann 11. Ágúst 2016 til tveggja erlendra birgja, en kröfurnar voru gjaldfallnar. Kemur fram í ákærunni að Guðmundur Hjaltason hafi fyrir hönd Skúla gefið þáverandi prókúruhafa EK1923 fyrirmæli um að framkvæma greiðslurnar.

EK1923 hét áður Eggert Kristjáns­son ehf. heild­versl­un. Skúli keypti félagið og varð það meðal annars á tímabili heildsala fyrir veitingastaði Skúla. Eftir að félagið varð gjaldþrota hefur skiptastjóri þess, Sveinn Andri Sveinsson, höfðað fjölda riftunarmála gegn félögum Skúla auk þess sem hann vísaði málum til saksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert