Getur ekki fullyrt um eldsupptök

Rannsókn á eldsupptökum stendur yfir.
Rannsókn á eldsupptökum stendur yfir. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra getur ekki fullyrt að svo stöddu um eldsupptök vegna eldsvoðans á Norðurgötu á Akureyri snemma í gærmorgun.

Að sögn lögreglunnar er verið að púsla saman upplýsingum vegna þess sem gerðist.

Vettvangsrannsókn lauk í gær en við hana naut lögreglan aðstoðar frá tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Í gærkvöldi hafði stærsti hluti hússins verið rifinn svo hægt væri að slökkva í glæðum.

Enginn slasaðist í brunanum en fyrst um sinn var talið að einn íbúi gæti hafa verið heima hjá sér þegar eldurinn kom upp. Svo reyndist ekki vera.

mbl.is