Slökkvistarfi formlega lokið

Slökkvistarfi lauk formlega klukkan hálftíu í kvöld.
Slökkvistarfi lauk formlega klukkan hálftíu í kvöld. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Slökkvistarfi vegna eldsins sem kviknaði á Norðurgötu á Akureyri snemma í morgun lauk formlega klukkan hálftíu í kvöld og þá hafði stærsti hluti hússins verið rifinn niður svo hægt væri að slökkva í öllum glæðum. 

Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Vettvangsrannsókn lögreglu er einnig lokið, en niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja ekki fyrir enn. Við þá rannsókn naut lögreglan aðstoðar frá tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Frágangsvinnu á vettvangi er heldur ekki að öllu lokið, en vonast er til að hún klárist hið fyrsta. Svo­kallaður krabbi hefur verið notaður til að rífa húsið, setja í gáma og flytja af svæðinu. 

Líkt og fram hefur komið slasaðist enginn í brunanum, en framan af var talið að einn íbúi gæti hafa verið heima hjá sér þegar eldurinn kom upp en svo reyndist ekki vera.

mbl.is