Kópavogsbúar fagna afmæli barnasáttmálans

Börn hafa réttindi! Myndin var tekin í göngu til áréttingar …
Börn hafa réttindi! Myndin var tekin í göngu til áréttingar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2016. mbl.is/Eggert

Haldið verður upp á 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi miðvikudaginn 20. nóvember. Stór hluti barna bæjarins tekur þátt í viðamikilli dagskrá sem fram fer í Menningarhúsum bæjarins frá kl. 9 til 13 en er unnin í samráði skóla og Menningarhúsanna. 

Kópavogsbær er að innleiða Barnasáttmála SÞ, en það var samþykkt af bæjarstjórn í maí í fyrra og þar með komast í hóp barnvænna sveitarfélaga.

Áhersla verður lögð á umhverfis- og loftslagsmál, frið, réttindi og þátttöku barna í samfélaginu. Meðal þess sem er boðið upp á er Friðarsýning leikskólabarna í anddyri Salarins, umhverfis- og loftslagssýningin Pláneta A, málþingið Krakkaveldi og tónleikar Skólahljómsveitar Kópavogs, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Þá opnar sýning á verkum leikskólabarna í Smáralind síðdegis þar sem birtist túlkun barna á Barnasáttmálanum og unglingar úr Kópavogi dansa í félagsmiðstöðinni Þebu.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð að lögum árið 1990 en allar þjóðir heims, að Bandaríkjunum undanskildum, hafa samþykkt sáttmálann sem samanstendur af 54 greinum um réttindi barna. Sáttmálinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd árið 1992 en fullgilding hans felur í sér að Ísland er skuldbundið að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði sáttmálans. Barnasáttmálinn var lögfestur hér á landi 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert