Kjósendur kunni að meta stefnufestu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Ljósmynd/Miðflokkurinn

„Vitanlega er þetta mjög ánægjulegt en ég held að það séu um tíu ár síðan ég lýsti því yfir að ég ætlaði ekki að stjórnast af skoðanakönnunum. Þannig að maður verður að halda sig við það líka þegar niðurstöður þeirra eru góðar.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is vegna nýrrar skoðanakönnunar MMR en samkvæmt niðurstöðum hennar mælist flokkurinn með næst mest fylgi eða 16,8%. Sjálfstæðisflokkurinn er áfram með mest fylgi en hefur hins vegar ekki mælst áður með minna fylgi í könnunum fyrirtækisins eða 18,1%.

„Eðli skoðanakannana er auðvitað það að þær sveiflast og það sem fer upp getur farið niður og öfugt. Ég samt held í þá trú að ef fólk heldur sínu striki og stendur við sitt án þess að reyna að elta tíðarandann hverju sinni þá kunni kjósendur að meta það þegar að kosningum kemur. En þetta er samt vitanlega ánægjuleg vísbending.“

Sigmundur segist telja stefnufestu nauðsynlega í stjórnmálum og að skortur sé á henni í þeim í dag. „Ég myndi vilja sjá meiri stefnufestu hjá fleiri flokkum. Hvort sem ég er sammála þeim eða ekki þá myndi ég vilja sjá að fólk stæði raunverulega fyrir eitthvað sem það væri tilbúið að standa við hvort sem það er vinsælt þann daginn eða ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka