Niðurfelling virðisaukaskatts af hjólum tvöfölduð

Á ferð á reiðhjóli. Mynd úr safni.
Á ferð á reiðhjóli. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um ívilnanir vegna vistvænna ökutækja, rafmagnsreiðhjóla og annarra reiðhjóla var samþykkt í ríkisstjórn í dag.

Frumvarpinu er ætlað að auðvelda fólki kaup á hvers kyns vistvænum hjólum að því er fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins. Var sú breyting gerð á frumvarpinu frá því það var kynnt í Samráðsgáttinni að niðurfelling virðisaukaskatts af rafmagnsreiðhjólum og reiðhjólum var tvöfölduð eftir umsagnir sem bárust um málið.

Er nú gert ráð fyrir að hámark niðurfellingar virðisaukaskatts af rafmagnsreiðhjólum verði 96 þúsund krónur en 48 þúsund fyrir reiðhjól.

Segir í fréttinni að umhverfissjónarmið hafi verið höfð að leiðarljósi við gerð frumvarpsins, sem hafi að meginmarkmiði að greiða fyrir orkuskiptum og vistvænum samgöngum með tilheyrandi samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

Frá árinu 2012 hefur verið í gildi ívilnun sem lækkað hefur útsöluverð vistvænna ökutækja og gildir hún til ársloka 2020. Í frumvarpinu er lagt til að hún verði framlengd fyrir hreinorkutæki til ársloka 2023, en að virðisaukaskattsívilnun fyrir tengiltvinnbifreiðar falli niður eftir 31. desember 2020..

Þá er í frumvarpinu lagt til að kostnaður við heimahleðslustöðvar minnki verulega með fullri endurgreiðslu virðisaukaskatts af bæði efni og vinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina