Þörf fyrir rúmlega 1.800 íbúðir á ári

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þörf er á breyttri umgjörð í húsnæðismálum, eigi að skapa stöðugleika á húsnæðismarkaði. Þetta kemur fram í inngangsorðum Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, að skýrslu um stöðu og þróun í húsnæðismálum sem kynnt er í dag í tengslum við húsnæðisþing sem haldið er á Hilton Reykjavík Nordica.

Segir Ásmundur Einar mikilvæg skref hafa verið stigin í þessum efnum undanfarið, auk þess sem stjórnsýsla hafi verið efld. „Íbúðalánasjóður ber ábyrgð á framkvæmd húsnæðismála og gerir reglulegar og ítarlegar greiningar á húsnæðismarkaði,“ segir ráðherra og kveður stjórnvöldum með þessu verða gert kleift að „taka skilvirkari og upplýstari ákvarðanir“ sem tryggi að stuðningur skili sér til þeirra sem þurfi mest á honum að halda. 

Yfirskrift þingsins er: Þjóð undir þaki – jafnfrétti og jafnvægi á húsnæðismarkaði, en meðal þess sem þar verður kynnt er ný greining ÍLS á óuppfylltri íbúðaþörf, niðurstöður nýrrar leigumarkaðskönnunar og ný hlutdeildarlán Íbúðalánasjóðs sem hjálpa ungu fólki og tekjulágum að kaupa húsnæði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir í inngangsorðum skýrslunnar …
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir í inngangsorðum skýrslunnar þörf á breyttri umgjörð í húsnæðismálum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í skýrslunni kemur fram að þörf sé fyrir að meðaltali 1.820 íbúðir á ári hverju fram til ársins 2040 og að útlit sé fyrir að íbúðum muni alls fjölga um ríflega 11.000 á landsvísu á tímabilinu 2020 til 2023 eða að meðaltali í kringum 2.800 íbúðir á ári hverju. Það sé nokkuð minni fjölgun en gert var ráð fyrir í fyrri spá Íbúðalánasjóðs, en líkt og fjallað er um í nýjustu útgáfu Peningamála Seðlabanka Íslands bendi nýjustu tölur til þess að tekið sé að hægja á vexti íbúðafjárfestingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert