Hrasaði og handleggsbrotnaði

mbl.is/Eggert

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um annarlegt ástand kennara er hann mætti í jólaföndur í skóla á höfuðborgarsvæðinu. Ástandið mátti rekja til veikinda kennarans.

Tilkynningin barst á sjöunda tímanum í kvöld, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Laust fyrir klukkan hálfátta í kvöld var tilkynnt um slys við verslun í Vesturbæ Reykjavíkur. Kona hafði hrasað fyrir utan verslunina og er hún líklega handleggsbrotin.

Skömmu fyrir klukkan níu var tilkynnt um konu liggjandi í götunni í miðbænum. Talið var að ráðist hefði verið á hana. Þegar lögregla kom á staðinn og ræddi við konuna, sem var ofurölvi, sagðist hún eingöngu hafa lagt sig um stund.

Um svipað leyti var tilkynnt um konu sem datt niður stiga á skemmtistað í miðbænum. Þegar rætt var við konuna, sem var búin að neyta áfengis, sagðist hún hafa runnið til og dottið á höfuðið. Hún var flutt á slysadeild til aðhlynningar.

Tilkynnt var um innbrot í heimahús í Garðabæ um hálfáttaleytið. Ýmsum munum var stolið og er málið í rannsókn.

Á sjötta tímanum var jafnframt tilkynnt um þjófnað frá verslun í Breiðholti. Þá var tilkynnt um klukkan hálfníu um aðila að reyna að komast inn í bíla í miðbæ Reykjavíkur.

Uppfært 9:50

Fyrirsögn fréttarinnar var breytt eftir að það kom í ljós í morgun að annarlegt ástand kennara við skóla í Reykjavík mátti rekja til veikinda en ekki til ölvunar, sem mátti skilja af upphaflegri tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér í gærkvöldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert