Kennsla felld niður vegna óánægju

Engin kennsla fer fram í Valhúsaskóla í dag.
Engin kennsla fer fram í Valhúsaskóla í dag. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Kennarar í Valhúsaskóla felldu niður kennslu í sjöunda til tíunda bekk í dag vegna óánægju með framgöngu kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn. Í fyrstu átti eingöngu að fella niður kennslu frá kl. 8 til 10:15 en eftir fund í morgun var ákveðið að fella niður kennslu í allan dag, samkvæmt upplýsingum frá skólanum. RÚV greindi fyrst frá.  

Ástæðan er sú að mikil gremja er meðal kennara vegna framgöngu kjörinna fulltrúa bæjarstjórnar sem hafa gagnrýnt Grunnskóla Seltjarnarness opinberlega vegna námsmats nemenda í 10. bekk sem útskrifuðust í vor. 

Foreldrar og stjórnendur í Grunnskóla Seltjarnarness sendu í morgun póst á foreldra barna í Valhúsaskóla. Þeir segjast „harma þann dóm sem pólitískir fulltrúar hafi fellt yfir skólanum. Þessi umfjöllun hefur haft þau áhrif inn í skólann að kennurum og stjórnendum finnst freklega að sér vegið og kennarar treysta sér ekki til að taka á móti nemendum í dag.“ Þetta segir í bréfinu. 

Ekki næst í skólastjórnendur vegna fundahalda. 

Þrír fulltrúar Samfylkingarinnar harma framgöngu stjórnmálamanna í opinberri gagnrýni sinni á Grunnskólann. Þeir lýsa jafnframt fullu trausti á skólann og skólastjórnendur hans. „Þau orð sem fallið hafa um að skólinn fái falleinkunn og að kennarar í Grunnskóla Seltjarnarness hvetji hvorki né styðji við nám barna á Seltjarnarnesi eiga við engin rök að styðjast.“ Þetta kemur fram á Facebook-síðu Samfylkingarinnar. 

Fulltrúar Samfylkingarinnar segja að unnið hafi verið að því að auka gagnsæi námsmatsins og bæta ferla eftir ábendingar meðal annars frá foreldrum í vor. Þeir benda enn fremur á að vandamálið liggi hjá ráðuneyti menntamála sem sé „bleiki fíllinn í málinu“ því ráðuneytið hafi ekki fylgt nægilega vel eftir innleiðingu á nýja námsmatinu. 

Það hefur verið illa haldið utan um þetta mál eftir að það komst á borð stjórnmálamanna og hefur það bitnað á öflugum kennarahópi Grunnskóla Seltjarnarness og því góða starfi sem þar er unnið,“ segir enn fremur í færslunni. 

Undir þetta skrifa: Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi, Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi og Hildur Ólafsdóttir, fulltrúi XS í skólanefnd.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert