Ætlar að senda bótakröfu á Reykjavíkurborg

Svona leit inngangurinn að Gráa kettinum út í byrjun nóvembermánaðar. …
Svona leit inngangurinn að Gráa kettinum út í byrjun nóvembermánaðar. Ásmundur segir að viðskiptin hafi tekið við sér um leið og framkvæmdum lauk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Helgason, veitingamaður á Gráa kettinum við Hverfisgötu, gleðst yfir því að Hverfisgatan sé komin í sitt rétta horf, eftir langt framkvæmdatímabil sem hann segir að hafi reynt mikið á og haft afar slæm áhrif á reksturinn.

Ásmundur Helgason, veitingamaður á Gráa kettinum við Hverfisgötu.
Ásmundur Helgason, veitingamaður á Gráa kettinum við Hverfisgötu.

Hann ætlar að senda borginni bótakröfu vegna framkvæmdanna, sem fóru langt umfram þann tíma sem ætlaður var til verksins. Hverfisgatan átti að vera klár í ágúst, en verkið tafðist fram í nóvember og mikið rask fylgdi því um hartnær sex mánaða skeið.

„Bara um leið og girðingarnar fóru niður fóru viðskiptin í eðlilegt horf. Daginn sem grindverkin fóru niður breyttist staðan til batnaðar. Það bara sýnir hvað ég var innilokaður og hvað þessi grindverk höfðu gríðarlega mikil áhrif,“ segir Ásmundur í samtali við blaðamann.

Spurður hvort hann hafi eitthvað heyrt um það að borgin komi til með að bæta honum að einhverju leyti það tjón sem reksturinn varð fyrir meðan á framkvæmdum stóð segist hann ekkert hafa heyrt um það.

„Ég ætla bara að senda kröfu á þau og sjá hverju það skilar. Það er í vinnslu,“ segir Ásmundur sem hefur ekki ákveðið hver upphæð kröfunnar verður, en hann reiknar með að senda borginni kröfubréf sitt fyrir jól.

Allir sýna skilning en engar bætur að fá

Hann segir alla sem hann ræði við í borgarkerfinu sýna vandræðum sem rekstraraðilar hafi orðið fyrir „voðalega mikinn skilning,“ en enginn vilji bæta neitt.

„Framkvæmdasviðið og pólitíkin og embættismennirnir, það sýna allir málinu voðalega mikinn skilning, en það er enginn tilbúinn að bæta mér þetta á neinn hátt. En þau ætla að læra af þessu,“ segir Ásmundur.

„Þetta eru þau viðbrögð sem maður fær: „Já, þetta var ekki nógu gott, við ætlum að læra af þessu. Borga þér? Nei.“ Þetta er bara þannig sko. Veitur komu í heimsókn og fengu líka alla söguna og ætla líka að læra af þessu. Borga bætur? Nei,“ segir Ásmundur, sem segir að fleiri rekstraraðilar í grennd við hann á neðri hluta Hverfisgötunnar hafi lent í miklum hremmingum vegna framkvæmdanna.

„En þetta er mikill léttir og gatan er falleg, lagnirnar nýjar og festir ekki snjó á götunni. Við erum ánægð núna, en þetta hefur reynt helvíti mikið á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert