Fámenn sendinefnd skiptir liði í Madríd

Þrátt fyrir stuttan fyrirvara segir Helga ótrúlega vel hafa tekist …
Þrátt fyrir stuttan fyrirvara segir Helga ótrúlega vel hafa tekist til hjá Spánverjunum að koma ráðstefnunni upp. AFP

„Stóra málið á þessum fundi er að ljúka við regluverkið við innleiðingu Parísarsamningsins, en það sem stendur út af eru leiðbeiningar varðandi 6. grein sem fjallar um kolefnismarkaði, að setja upp kerfi svo menn geti uppfyllt markmiðin með því að skiptast á losunarheimildum.“

Þetta segir Helga Barðadóttir, formaður sendinefndar Íslands á 25. ráðstefnu aðildarríkja lofts­lags­samn­ings Sam­einuðu þjóðanna (COP25) sem hófst í Madríd á Spáni í gær.

Ekki er víst að markmið fundarins náist á ráðstefnunni, sem stendur til 13. desember, en það tókst ekki á COP24 sem fram fór í Katowice í Póllandi á síðasta ári, né á vorfundi undirnefnda loftslagssamningsins síðastliðið vor.

„Ég var á fundi áðan þar sem verið var að ræða við formenn sendinefndanna, fara yfir vinnulagið og tryggja að allir vinni saman og tali saman, svo það er jákvæður tónn í dag,“ segir Helga og að fólk sé passlega bjartsýnt á að markmiðið varðandi 6. grein náist.

Sendinefndir landanna sem aðild eiga að sáttmálanum eru misstórar.
Sendinefndir landanna sem aðild eiga að sáttmálanum eru misstórar. AFP

Reiknað er með því að undirnefndirnar tvær, sem fjalla annars vegar um innleiðingarmál og um tækni og vísindi hins vegar, ljúki vinnu sinni um helgina og að málið verði tekið á hærra stig eftir helgi, að sögn Helgu.

Vegna smæðar íslensku sendinefndarinnar gefst ekki kostur á því að Ísland sé með sérstök mál eða málflutning á fundinum, en þær Helga og Anna Sigurveig Ragnarsdóttir eru aðeins tvær í nefndinni. Þær þurfa því að verja tíma sínum vel og velja á milli funda til að sitja.

Útilokað að fylgjast með öllu

„Það er útilokað að við getum fylgst með öllu. Dagskráin er löng og hver dagskrárliður fer svo í sérumræður á sérfundum og það geta verið þrír til fimm fundir á sama tíma um hin ýmsu dagskrármál. Það eru helst markaðsmálin sem við fylgjumst með og reynum að fylgja eftir. Þetta er hlutskipti lítillar þjóðar, og við þurfum að skipta liði,“ segir Helga. Til samanburðar má nefna að 30 eru í sendinefnd Norðmanna á fundinum.

Til stóð að ráðstefnan færi fram í höfuðborg Síle, Santíago, en vegna viðvarandi óeirða í landinu tilkynnti ríkisstjórn landsins í lok október að ekki yrði unnt að halda ráðstefnuna í Santíagó. Spánverjar voru fljótir til og buðust til að halda ráðstefnuna í þeirra stað, og það í höfuðborginni Madríd. Síle hefur þó enn formennsku á fundinum.

Þrátt fyrir stuttan fyrirvara segir Helga ótrúlega vel hafa tekist til hjá Spánverjunum. „Þetta er alveg ótrúlegt, þeir eru búnir að vinna kraftaverk við að koma þessari ráðstefnu upp. Það eru engir hnökrar og allt virkar, á alveg ótrúlega stóru ráðstefnusvæði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina