Hótaði að slíta þingfundi vegna framíkalla

Tilefni karps þingmannsins og forseta var fyrri ræða Helga Hrafns …
Tilefni karps þingmannsins og forseta var fyrri ræða Helga Hrafns þar sem hann gagnrýndi að taka ætti fyrir mál þjóðkirkjunnar, kirkjujarðasamkomulagið svokallaða, á þingfundi dagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forseti Alþingis hótaði að slíta þingfundi í dag ef þingmenn héldu áfram að kalla fram í fyrir honum. Undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta var Steingrímur J. Sigfússon harðlega gagnrýndur af Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata.

Tilefni karps þingmannsins og forseta var fyrri ræða Helga Hrafns þar sem hann gagnrýndi að taka ætti fyrir mál þjóðkirkjunnar, kirkjujarðasamkomulagið svokallaða, á þingfundi dagsins. Steingrími þótti Helgi Hrafn fara út fyrir dagskrá þingfundar með því að ræða dagskrármálið undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta, í stað þess að ræða það þegar málefni þjóðkirkjunnar yrðu tekin fyrir síðar á fundinum.

„Kirkjujarðasamkomulags‚bix‘“

Sagði Helgi Hrafn samninginn óheiðarlegan og til skammar að taka ætti hann til meðferðar með svo stuttum fyrirvara og svo skömmu fyrir jólafrí. Ljóst lægi fyrir að málið fengi ekki þinglega meðferð. „Þetta mál finnst mér ótækt að taka fyrir vegna þess að þetta kirkjujarðasamkomulags‚bix‘ sem heldur hérna áfram fær enga almennilega þinglega meðferð á þessum tímapunkti.“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/​Hari

Samflokksmenn Helga Hrafns, Halldóra Mogensen og Björn Leví Gunnarsson, gagnrýndu að forseti hefði truflað ræðu þingmannsins og er Helgi Hrafn kom öðru sinni í pontu sagðist hann hljóta að geta mótmælt því að mál væri sett á dagskrá undir liðnum fundarstjórn forseta.

Jólin notuð sem kúgunartæki

„Jólin eru enn ein tilfinningalega kúgunin til að koma hagsmunum þjóðkirkjunnar að umfram aðra trúarsöfnuði í landinu,“ sagði Helgi Hrafn.

Þegar forseti útskýrði mál sitt að lokinni ræðu Helga Hrafns virtist þingmaður svo í tvígang kalla fram í fyrir forseta, sem var ekki skemmt. „Vill háttvirtur þingmaður vinsamlegast leyfa forseta að tala. Eitt verður ekki liðið, að þingmenn grípi fram í fyrir forseta sínum, og þingfundi verður slitið ef þingmenn halda slíku áfram.“

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að Helgi Hrafn hefði sagt „kirkjujarðasamkomulags‚bitch‘.“ Hið rétta er að hann sagði kirkjujarðasamkomulags‚bix‘.“ Hefur fréttin verið leiðrétt vegna þessa. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

mbl.is