Sagði stjórnendum ekki frá greiðslunum

Sacky Shanghala, fráfarandi dómsmálaráðherra Namibíu (t.v.), ásamt Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstrara …
Sacky Shanghala, fráfarandi dómsmálaráðherra Namibíu (t.v.), ásamt Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstrara og þáverandi starfsmanni Samherja, árið 2014. Ljósmynd/Wikileaks

Ingólfur Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu, segir að hann hafi aldrei sagt stjórnendum Samherja á Íslandi frá greiðslum til Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Greiðslurnar fóru fram í gegnum leigusamning við namibíska félagið ERF 1980.

Telur Ingólfur ólíklegt að stjórnendur Samherja á Íslandi hafi vitað af tilvist félagsins. Samherji hafnar því alfarið að hafa vitað af mútugreiðslum til Sacky Shanghala. Enginn starfsmaður Samherja sem Fréttablaðið hefur rætt við, vill koma fram undir nafni um vitneskju fyrirtækisins um mútugreiðslur í gegnum félagið ERF 1980, eftir því sem blaðið kemst næst er það vegna fyrirmæla norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein sem vinnur nú að rannsókn málsins fyrir hönd Samherja.

Í bréfi sem fyrirtækið sendi Fréttablaðinu segir að greiðslurnar hafi alfarið verið á vegum Jóhannesar Stefánssonar, uppljóstrara og fyrrverandi stjórnanda Namibíufélaga Samherja. Með bréfinu fylgja tölvupóstar frá árinu 2015, sem ekki er að finna í gagnabanka WikiLeaks, sem Samherji segir styðja mál sitt, að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert