800 manns í nístingskulda í Bláfjöllum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 800 manns nýttu tækifærið og renndu sér á skíðum og snjóbrettum í Bláfjöllum í dag, er skíðasvæðið var opnað í fyrsta sinn í vetur. Níu gráða frost var í Bláfjöllum í dag, og í þokkabót nokkur vindur, en skíðagarpar virðast ekki hafa látið það á sig fá. „Þessi fatnaður verður bara að vera nógu hlýr,“ segir Einar Bjarnason, rekstarstjóri Bláfjalla, brattur. Hann segir daginn hafa gengið hnökralaust og er ánægður með mannfjöldann í miðri jólatörninni.

Margar leiðir voru lokaðar í dag og Einar segir það aðeins hafa verið fyrir mikla vinnu starfsmanna síðustu daga sem tókst að hafa einhverjar opnar. Skíðasvæðið fór ekki varhluta af ofsaveðri síðustu viku. „Við fengum ágætis gusu, vírar fuku út af lyftum og fleira,“ segir hann. Ekkert stórtjón hafi orðið en þó töluverð vinna nauðsynleg til að geta opnað svæðið.

Opnunin nú, um miðjan desember, er í fyrra fallinu miðað við síðustu ár, en Einar segir stefnt að því að halda opnu næstu daga. „Nú keyrum við bara á þetta.“

Ljósmynd/Skíðasvæðin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert