Held ennþá hugsunum inni

Þórður Tómason í Skógum er enn að skrifa bækur, orðinn …
Þórður Tómason í Skógum er enn að skrifa bækur, orðinn 98 ára. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég þakka það þeirri forsjón sem gerði mig svona vel úr garði. Ég hef notið góðrar heilsu og held ennþá hugsunum inni. Það er langlífi í fjölskyldunni en bróðir minn varð 98 ára og systir mín er orðin 96 ára. Annars er þetta komið á það stig að ég þakka Guði fyrir hvern dag sem ég fæ að lifa og starfa í umgengni við gott fólk.“

Þannig svarar Þórður Tómasson, rithöfundur og menningarfrömuður í Skógum undir Eyjafjöllum. fyrirspurn þess efnis hverju hann þakki langlífið en hann verður 99 ára í vor. 

„Gjöriði svo vel, þetta er skrifstofan mín,“ segir Þórður við sendinefnd Morgunblaðsins. Athygli vekur að þar er ekkert skrifborð, aðeins drjúgt sófaborð, og hvorki ritvél né tölva. „Hér sit ég og skrifa,“ bætir hann við og setur sig í stellingar við borðið. „Ég vélritaði mjög lengi en síðustu árin hef ég handskrifað allt mitt efni. Sigurlín Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi skólastjóri, hefur verið svo vinsamleg að taka síðan við handritunum mínum og búa þau undir prentun. Fyrir það kann ég henni miklar þakkir. Helgi Magnússon sagnfræðingur á líka drjúgan þátt í þessari nýju bók, las allt vandlega yfir og jafnvel hægt að kalla hann meðhöfund.“

Úrvinnsla úr sjóði óbirtra heimilda

Auðhumla heitir hún, nýja bókin, og er svo sem nafnið gefur til kynna fræðslurit um gamla verkmenningu, málfar og þjóðhætti sem tengjast kúabúskap og nautpeningi í gamla íslenska bændasamfélaginu. Þórður íhugaði nafnið Búkolla enda tengingin skýr við aldinn ævintýraheim en kaus þó Auðhumlu, sem sótt er til hinnar miklu ættmóður kúakyns sem færði björg og blessun í bú bænda um aldir.

„Með þessari bók fullkomnar Þórður Tómasson úrvinnslu sína á sjóði óbirtra heimilda og nýtur þar bæði fræðilegrar þekkingar sinnar og eigin reynslu af lífi og starfi í þeim menningar- og atvinnuheimi sem hér er sagt frá,“ segir í kynningu útgefanda, bókaútgáfunnar Sæmundar.

Eins og í fyrri bókum, Mjólk í mat og Heyönnum, er Þórður með báða fætur í gömlu búmenningunni. „Þetta tengist allt og ég kem víða við, án þess þó að tæma neitt. Verst hvað áhugi fyrir þessum gömlu fræðum fer dvínandi. Þór Magnússon skrifaði til dæmis stórmerkilegt tveggja binda verk um silfursmíði og ætti að fá doktorsnafnbót að launum. En maður heyrir fólk ekki tala um þetta. Það er synd.“

Snemma beygist krókurinn, eins og sagt er, og Þórður var aðeins um fermingu þegar hann byrjaði að viða að sér efni um gamla þjóðmenningu Íslands, sem hvarvetna hélt velli í hans sveit undir Eyjafjöllum og raunar um land allt.

Bjart var yfir Byggðasafninu í Skógum í byrjun vikunnar. Þórður …
Bjart var yfir Byggðasafninu í Skógum í byrjun vikunnar. Þórður á ríkan þátt í uppbyggingu þess og viðhaldi gegnum áratugina. mbl.is/Árni Sæberg


Nánar er rætt við Þórð í Skógum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »