Samherji og grái listinn aukið orðsporsáhættu

Fjármálastöðugleikaráð segir orðsporsáhættu Íslands hafa aukist vegna veru Íslands á …
Fjármálastöðugleikaráð segir orðsporsáhættu Íslands hafa aukist vegna veru Íslands á gráa listanum og umfjöllunar um starfsemi Samherja. mbl.is/Árni Sæberg

Vera Íslands á gráum lista FATF (Financial Action Task Force) og neikvæðar fréttir af starfsemi innlends sjávarútvegsfyrirtækis erlendis hafa aukið orðsporsáhættu Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu vegna fundar fjármálastöðugleikaráðs, frá því á þriðjudag. 

Áfram hefur hægst á innlendum efnahagsumsvifum og samdráttur í ferðaþjónustu er orðinn áþreifanlegri en áður, að því er segir í tilkynningu. Á sama tíma hefur húsnæðisverð haldist nokkuð stöðugt og hægt á skuldaaukningu, einkum fyrirtækja.

Ytri staða þjóðarbúsins er sögð jákvæð, og skuldir hins opinbera og einkageirans litlar í sögulegu samhengi, eftir uppgang síðustu ára. Peningastefna og ríkisfjármál búa við hagstjórnarsvigrúm til að bregðast við aðstæðum sem kunna að koma upp, auk þess sem gjaldeyrisforði Seðlabankans er rúmur.

Á fundinum var samþykkt að beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að halda sveiflujöfnunarauka óbreyttum að svo stöddu. Hann var hækkaður með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins úr 1,75% í 2% í febrúar, en sú ákvörðun tekur ekki gildi fyrr en í febrúar 2020.

Fundur fjármálastöðugleikaráðs var sá síðasti í núverandi mynd, en frá áramótum breytist reglulegt starf og hlutverk ráðsins, er Fjármálaeftirlitið sameinast Seðlabanka Íslands. Ráðið mun þó eftir sem áður vera mikilvægur samráðsvettvangur fjármála- og efnahagsráðherra og Seðlabankans, að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert