Íslensk tré sækja í sig veðrið

Meira að segja Óslóartréð er íslenskt að þessu sinni.
Meira að segja Óslóartréð er íslenskt að þessu sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensk tré njóta síaukinnar hylli landans, ef marka má sölutölur jólatrjáasala í ár. Hjá Flugbjörgunarsveitinni seldust öll tré upp síðdegis í gær og ljóst að eftirspurn eftir íslenskri stafafuru, blá- og rauðgreni var töluvert meiri en framboð. Sömu sögu er að segja af Blómavali. Þar eru öll íslensk tré uppseld, en enn eitthvað til af dönskum normannsþini.

Kristján Magnússon, skrúðgarðyrkjufræðingur hjá Blómavali, segir að veðurofsinn fyrr í mánuðinum hafi sett strik í reikninginn. Ekki hafi tekist að fella jafnmörg tré og til stóð og því hafi framboðið af íslenskum trjám verið minna en ella.

Kristján segir að hefðbundin jólatré virðist vera að sækja í sig veðrið, og undir það tekur Díana Allansdóttir verslunarstjóri. „Maður finnur það líka í skreytingunum að gamli tíminn virðist dálítið kominn aftur. Fólk með grenitré og greniskreytingar,“ segir hún.

Algengast er að fólk velji tré á milli 1,5 og 2 metra og kláruðust þau um tíma í síðustu viku, þótt Kristján bæti við að eitthvað sé til af þeim nú. Enn er því tækifæri fyrir þau sem eiga eftir að verða sér úti um tré fyrir jólin. Þá færist í aukana að fólk kaupi stærri tré, yfir tveimur metrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert