Mikilvægt að hafa áhuga á náminu

Elísabet Nótt hlaðin verðlaunum eftir útskriftina.
Elísabet Nótt hlaðin verðlaunum eftir útskriftina. Ljósmynd/Aðsend

Elísabet Nótt G. Norðdahl útskrifaðist úr Fjölbrautarskólanum í Breiðholti 20. desember sem dúx, með 9,34 í meðaleinkunn. Elísabet segir lykilinn að árangrinum að hafa gaman að náminu og njóta þess að læra nýja hluti. 

Elísabet er fædd árið 1998, en fyrir skólagönguna í FB stundaði hún listnám í Bretlandi. Hún byrjaði fyrst um sinn á myndlistabraut skólans, en eftir tvær annir ákvað hún að skipta yfir á opna braut. 

Elísabet segir skipulag og áhuga búa að baki námsárangrinum. 

„Fyrst og fremst hef ég alltaf haft mjög gaman að náminu, alveg sama hvaða fag það er. Mér finnst rosalega gaman að læra nýja hluti og sökkva mér svolítið í þá. Svo er það númer eitt, tvö og þrjú að skipuleggja sig vel, hafa smá aga. Setjast niður og læra fyrir próf þegar maður þarf að gera það. En það sem hjálpaði mér mest held ég var áhuginn á náminu,“ segir Elísabet. 

Lærði aga og skipulag í ballett

Þá segir Elísabet einnig að áralangt ballettnám hafi hjálpað henni í náminu.

„Það hefur væntanlega hjálpað mér talsvert með skipulag, aga og metnað, að hafa æft ballett.“

Elísabet segist ekki hafa viljað viðurkenna það fyrirfram að hún stefndi að því að dúxa við útskrift. 

Elísabet Nótt.
Elísabet Nótt. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar ég fór að sjá hvaða einkunnir ég gat fengið fór ég að setja smá kröfur á sjálfa mig og hugsaði með mér að þetta væri eitthvað sem ég gæti gert. Mig langaði að gera þetta en ég þorði kannski ekki alveg að segja það. Ég þorði ekki alveg að viðurkenna það, en þetta var alveg eitthvað sem ég var að vinna að.“

Elísabet segist stefna á flugnám á næstunni, en að hún hafi einnig mikinn áhuga á lögfræði. 

„Valið stóð eiginlega á milli flugnáms og lögfræði. Mér fannst rosalega erfitt að velja á milli en ákvað svo fyrir svona ári að stefna á flugnám, mér fannst það aðeins ævintýralegra,“ segir Elísabet. 

„Ég ætla allavega að byrja á því en draumurinn væri að geta kannski seinna meir farið í lögfræði, ef áhuginn er ennþá til staðar.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert