Afstaða til flugelda neikvæðari en áður

Margir hafa áhyggjur af mengun sem myndast um áramótin vegna …
Margir hafa áhyggjur af mengun sem myndast um áramótin vegna sprenginga. mbl.is/Árni Sæberg

Rúmlega 37% fólks vill áfram óbreytt fyrirkomulag á flugeldasölu en það er nokkuð lægra hlutfall en fyrir ári þegar 45% vildu óbreytt fyrirkomulag. Þetta eru niðurstöður könnunar Maskínu um afstöðu almennings til flugelda.

Tæplega 32% vilja einungis leyfa sölu flugelda til aðila sem eru með flugeldasýningar, 22,7% vilja leyfa sölu flugelda til einstaklinga með þeim takmörkunum að hver megi einungis kaupa ákveðið magn af flugeldum og þá vilja 8,4% banna flugelda með öllu og fjölgar í þeim hópi um 1,8% milli ára.

Karlar (45%) eru samkvæmt könnuninni hlynntari óbreyttu fyrirkomulagi en konur (39%). Mikill munur er eftir menntunarhópum og þannig vill næstum því helmingur fólks með grunnskólapróf óbreytt fyrirkomulag en um 31% þeirra með háskólapróf.

Afstaða til flugeldasölu er mjög mismunandi eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk kýs. Ríflega 73% þeirra sem kjósa flokk fólksins vill óbreytt fyrirkomulega en einungis tæplega 16% kjósenda Vinstri grænna.

Um 25% kjósenda Pírata og Samfylkingarinnar vilja óbreytt fyrirkomulag en um 50% kjósenda Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins vill það sama. Hæst hlutfall kjósenda Samfylkingarinnar vill banna flugelda eða um 19%.

Svarendur voru 914 talsins og koma úr Þjóðgátt Maskínu sem er hópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Könnunin fór fram dagana 12. til 20. desember 2019.

Sumir vilja banna flugeldasölu með öllu.
Sumir vilja banna flugeldasölu með öllu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina