Varað við vestanhvelli á morgun

Tvær lægðir sem eru á leið til landsins geta valdið erfiðleikum í samgöngum, frekar þó á morgun en í dag. Veðurstofan gaf í gær út gula veðurviðvörun fyrir daginn í dag, fyrir Suðausturland frá hádegi í dag og Austfirði í kvöld.

Í viðvörun Veðurstofunnar kemur fram að búist er við að vindhraði í vestanhvassvirði eða stormi verði 15-23 metrar á sekúndu á Suðausturlandi og Austfjörðum og staðbundnir vindstrengir geti farið upp í 30-35 metra.

Hvassast verður í Mýrdal og Öræfum. Viðvaranirnar gilda síðdegis í dag og kvöld. Ökumenn eru hvattir til að fara varlega og íbúar á Austfjörðum að tryggja lausamuni sem eru utan dyra. Vestanáttin fer vaxandi í dag og nær hámarki í kvöld og víða verða él.

Veðurhæðin ræðst af ýmsu

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, hefur meiri áhyggjur af djúpri lægð sem kemur að landinu á morgun. „Ef þessi spá gengur eftir skellur á okkur mikill vestanhvellur sunnan lægðarmiðjunnar þar sem kalt loftið vestan að þrengir sér undir mildara loft við miðju lægðarinnar,“ skrifaði Einar á veðurvefinn Bliku. Tók hann fram að veðurhæðin réðist af ýmsu, svo sem risi loftþrýstings í kjölfarið og nákvæmri staðsetningu lægðarmiðjunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert