Andlát: Jón Valur Jensson

Jón Valur Jensson.
Jón Valur Jensson.

Jón Valur Jensson, guðfræðingur og ættfræðingur, varð bráðkvaddur á heimili sínu aðfaranótt 6. janúar, sjötugur að aldri.

Jón var fæddur í Reykjavík 31. ágúst 1949, einn þriggja barna þeirra Jens Hinrikssonar vélstjóra og Kristínar Jónu Jónsdóttur konu hans.

Jón Valur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1971 og lauk prófi sem guðfræðingur, cand. theol, frá Háskóla Íslands 1979. Síðar las hann sagnfræði, latínu og grísku við HÍ og lagði stund á framhaldsnám við trúarheimspeki og kristna siðfræði við háskólann í Cambridge í Englandi.

Á fyrstu árum eiginlegs starfsferils síns sinnti Jón Valur kennslu, meðal annars á Ísafirði. Árið 1986 stofnaði hann Ættfræðiþjónustuna og sinnti upp frá því margvíslegum verkefnum tengdum ættfræði; svo sem rannsóknum og kennslu. Þá starfaði hann í nokkur ár við prófarkalestur á Morgunblaðinu og fyrir fleiri útgáfur.

Jón Valur sendi frá sér nokkrar ljóðabækur og birti kveðskap í ýmsum blöðum og tímaritum. Hann setti saman ættartölur fjölmargra Íslendinga sem flestar hverjar komu aðeins út í fjölriti. Skrifaði einnig greinar um trúarleg efni sem birtust í dagblöðum og víðar.

Þekktastur varð Jón Valur þó fyrir afskipti sín af þjóðfélagsmálum en hann lét oft til sín heyra á vettvangi dagsins. Þráðurinn í málflutningi hans þar var gjarnan kristin gildi og þjóðhyggja, svo sem andstaða gegn fóstureyðingum, Evrópusambandinu og Icesave meðan baráttan þar stóð sem hæst.

Viðhorfsgreinar sínar birti Jón Valur meðal annars á samfélagsmiðlum og í blöðum, hann lét í sér heyra í símatímum útvarpsstöðva og var áberandi í bæjarlífinu í Reykjavík og á hinum ýmsu mannamótum og fundum. Var enn fremur í forystu samtakanna Lífsvonar, sem berjast gegn fóstureyðingum, og Kristinna stjórnmálasamtaka sem starfað hafa allt frá árinu 2004 . Þá var hann í Kaþólska söfnuðinum á Íslandi.

Jón Valur var fráskilinn en lætur eftir sig fjögur börn á lífi og einn stjúpson.

mbl.is

Bloggað um fréttina