Þingmaður sótti um framkvæmdastjórastöðu

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, staðfesti að hafa sóst eftir …
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, staðfesti að hafa sóst eftir starfinu í samtali við mbl.is, en listi umsækjenda hefur ekki verið birtur. mbl.is/Eggert

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sótti um starf framkvæmdastjóra nýrra landshlutasamtaka á Norðurlandi eystra, en hefur hætt við að sækjast eftir starfinu og tekið ákvörðun um að sitja á þingi út kjörtímabilið hið minnsta. Hún hefur ekki tekið ákveðið hvort hún bjóði sig fram til Alþingis á ný á næsta ári.

Þetta segir Albertína við mbl.is, spurð hvort hún hafi sóst eftir starfinu, en mbl.is hafði fengið ábendingu um það. Umsóknarfrestur rann út 6. janúar síðastliðinn. Listinn yfir þá sem sóttu um starfið hefur ekki verið birtur opinberlega, en ráðgjafafyrirtækið Capacent hefur umsjón með ráðningarferlinu.

mbl.is hefur óskað eftir því við Hildu Jönu Gísladóttur, stjórnarformann samtakanna og bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar á Akureyri, að fá listann í hendur.

Um er að ræða ný landshlutasamtök sem verða til með samruna Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Samtökin eru enn nafnlaus, en nafnasamkeppni fór fram núna í upphafi mánaðar.

Þótti starfið spennandi

„Mér þótti þetta spennandi starf, enda bakgrunnur minn hjá landshlutasamtökunum og áhugavert verkefni fram undan hjá þeim. Það er líka alveg ljóst að starfið á Alþingi útheimtir mikla fjarveru, en heimili mitt er fyrst og fremst fyrir norðan og þar sé ég framtíðina fyrir mér. Því lét ég slag standa og sótti um,“ segir Albertína við blaðamann í kvöld.

Hún segist hins vegar hafa áttað sig á því að hún væri ekki tilbúin að segja skilið við þingstörfin, þegar hún fór að hugsa málið. „Ég fann að ég vildi ljúka kjörtímabilinu og þeim verkefnum sem ég hef verið að sinna þar. Þar hef ég auðvitað líka tækifæri til að vinna fyrir kjördæmið allt nú sem áður og hlakka til þingstarfanna sem eru að hefjast í næstu viku,“ segir Albertína.

Þingkosningar eru á næsta ári og segir Albertína of snemmt að segja til um hvort hún muni sækjast eftir endurkjöri, tíminn verði að leiða það í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert