Tryggingar ættu að ná til mestalls eignatjóns

Umtalsvert tjón varð vegna snjóflóðanna í nótt.
Umtalsvert tjón varð vegna snjóflóðanna í nótt. Ljósmynd/Steinunn G. Einarsdóttir

Tryggingar á vegum Náttúruhamfaratrygginga Íslands sem og almennra tryggingafélaga ættu að ná til stærsta hluta þess eignatjóns sem varð vegna snjóflóðanna sem urðu bæði á Flateyri og við Súgandafjörð í gærkvöldi.

Flóð á Flateyri lenti á einu húsi þar og þá sukku sex bátar í höfninni auk þess sem flotbryggja losnaði og tjón varð á varanlegum hafnarmannvirkjum.

Í tilkynningu frá Náttúruhamfaratryggingum segir að tryggingar stofnunarinnar nái til tjóns á öllum fasteignum sem kunni að hafa orðið fyrir tjóni vegna snjóflóða, sem og brunatryggt innbú og lausafé. Þá er tjón á varanlegum hafnarmannvirkjum einnig bætt, en flotbryggjur eru undanskyldar.

Þá kemur fram að tjón á bátum sé ekki bætt af stofnuninni, en samkvæmt upplýsingum sem liggi fyrir bæti húftrygging báta hjá almennum tryggingafélögum tjón vegna snjóflóðs. Segir í tilkynningunni að fljótt á litið virðist vátryggingavernd á þeim eignum sem hafi skemmst vera nokkuð góð að frátalinni flotbryggjunni.

Þá er þeim sem hafa orðið fyrir eignatjóni bent á að tilkynna tjón á nti.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert