Breytingar á vatnsstöðu í Hvítá

Aðstæður við ána verða ekki skoðaðar frekar fyrr en í …
Aðstæður við ána verða ekki skoðaðar frekar fyrr en í björtu á morgun en þessi þróun bendir til þess að eitthvað hafi hreyft við ísstíflunni í ánni. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurlandi

Um kl. 19:00 í kvöld merkti veðurstofan breytingar á vatnsstöðu í Hvítá við Brúnastaði og gerði almannavörnum viðvart. Lögreglumenn fóru eftirlitsferð í Vaðnes og sú skoðun leiddi í ljós að vatnsborðið hefur lækkað töluvert við sumarbústaðina þar.

Aðstæður við ána verða ekki skoðaðar frekar fyrr en í björtu á morgun en þessi þróun bendir til þess að eitthvað hafi hreyft við ísstíflunni í ánni, að því er fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.

Enn eru ísstíflur í Hvítá á Suðurlandi vestan Hestfjalls og sýnir vatnshæðarmælir við Brúnastaði svipað ástand. Áfram má búast við einhverri úrkomu á vatnasviði árinnar og mun úrkoman ásamt leysingu skila sér með tíð og tíma neðar í ána. Því eru líkur á að vatnshæð á svæðinu hækki meira og að flæði enn frekar í nærumhverfi árfarvegarins. Enn fremur er möguleiki á þrepahlaupum þegar ísstíflurnar losna og rennsli árinnar getur aukist töluvert í skamman tíma í kjölfarið,“ kom fram í athugasemd sérfræðings á Veðurstofu Íslands fyrr í dag.

mbl.is