Hvítá enn í klakaböndum

Vatnsyfirborð í Hvítá hefur ekki hækkað umfram það sem verið …
Vatnsyfirborð í Hvítá hefur ekki hækkað umfram það sem verið hefur undanfarna daga. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurlandi

Lægðin sem fer yfir vestanvert landið hefur náð hámarki og hefur nú dregið töluvert úr úrkomu á vestanverðu landinu. Hvítá er enn í klakaböndum í landi Vaðness, en áin rennur neðan klakastíflunnar og hefur ekki flætt yfir bakka sína annars staðar en við Höskuldslæk þar sem áin fór yfir bakka sína og flæddi að sumarhúsabyggð fyrr í vikunni.

Vatnsyfirborð við sumarbústaðina hefur þó ekki hækkað umfram það sem verið hefur undanfarna daga, að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi. Lögreglumenn fóru að Víðinesi í hádeginu og segir Oddur að fylgst verði með stöðu mála.

Að sögn veðurfræðings er nú að snúast í suðvestanátt. Búist er við að kólni í nótt með tilheyrandi éljagangi. Næsta lægð kemur á miðvikudag með hlýju og rigningu, og má gera ráð fyrir hvössum eða allhvössum vindi, en þó er ekki útlit fyrir neina storma.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is