Einangrun eina vopnið gegn lungnasýkingu

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/mbl.is

Engin lyf eru til við dularfullri lungnasýkingu sem 62 hafa greinst með í Kína og Suður-Kóreu undanfarið, og því geta Íslendingar einungis gripið til takmarkaðra ráðstafana vegna sýkingarinnar. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Hann segir að hver og einn þurfi að gera það upp við sig hvort viðkomandi ferðist til Kína á meðan orsök og eðli sýkingarinnar eru enn ókunn. Engin opinber tilmæli hafa verið gefin út um ferðatakmarkanir.

Ýmis lönd hafa tekið upp skimanir á flugvöllum hjá farþegum sem koma frá Kína vegna sýkingarinnar en ekki er talin ástæða til slíks hér á landi. Spurður hvers vegna það sé segir Þórólfur:

„Skimanir eru mjög erfiðar í framkvæmd, þær krefjast svakalega mikils mannskaps og mikillar vinnu sem við höfum eiginlega ekki tök á. Svo er árangurinn af þessu ekki alveg ljós. Það var rætt um þetta þegar heimsfaraldur inflúensu var árið 2009 og þá hættu menn að gera það vegna þess að það skilaði svo litlum árangri þannig að ég held að það væri mikið í lagt fyrir lítinn ávinning.“

Sýkingin hefur líklega náð mun meiri útbreiðslu en kínversk yfirvöld …
Sýkingin hefur líklega náð mun meiri útbreiðslu en kínversk yfirvöld hafa viðurkennt opinberlega. Hér bera heilbrigðisstarfsmenn sjúkling sem greindist með veiruna í einangrun. AFP

Fyrri veirur hafa dregið 30% til dauða

Mikill viðbúnaður er í Kína vegna sýkingarinnar. Ný kórónaveira er ástæða sýkingarinnar en kórónaveirur hafa áður valdið miklum skaða og mannfalli. 774 létust úr SARS-vírusnum, sem einnig kom til vegna kórónaveiru, í Hong Kong og Kína á árunum 2002-2003.

„Menn eru náttúrulega í startholunum og hræddir vegna fyrri faraldra af völdum nýrra kórónaveira eins og SARS-vírussins 2002-2003 og svo MERS-sýkingarinnar á Arabíuskaganum upp úr 2012. Þar var dánartalan ansi há en það virðist vera að 30% sem sýkjast hreinlega deyi. Þess vegna eru menn alveg á tánum með þetta,“ segir Þórólfur.

Tveir hafa nú þegar týnt lífi vegna sýkingarinnar, báðir áttu við undirliggjandi heilsufarsvandamál að stríða en Þórólfur segir þó enn óljóst hvort veiran sé einnig hættuleg heilbrigðu fólki.

„Menn eru líka ekki alveg einhuga um það hversu mikil útbreiðslan er. Það eru örugglega fleiri sem hafa sýkst.“

Veiran gæti smitast á milli einstaklinga

Enn er óljóst hvort sýkingin smitist á milli manna eða sé einungis bundin við tiltekinn hóp sem hafi sýkst á matarmarkaði í borginni Wuhan í Kína. 

„Langflestir sem staðfest hefur verið að hafi sýkst hafa verið á þessum matarmarkaði í Wuhan en svo eru líka að berast fréttir um sýkingar hjá öðrum sem ekki hafa verið þar þannig að það er óljóst á þessu stigi málsins hvort sýkingin berist á milli manna. Það kæmi manni þó ekkert á óvart ef þetta smitaðist eitthvað á milli einstaklinga,“ segir Þórólfur. 

Engin lyf eru til við sýkingunni.
Engin lyf eru til við sýkingunni. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Það eru ekki til nein lyf við þessu“

Eins og er hefur ekki verið gripið til neinna ráðstafana hérlendis vegna sýkingarinnar. 

„Við getum ekki gert mikið nema verið viðbúin. Ef sýkingin kemur upp hér þurfa læknar og heilbrigðisstarfsmenn að vera meðvitaðir um hvaðan fólk er að koma svo hægt sé að grípa til viðeigandi aðgerða sem eru í raun og veru bara einangrun. Það er ekkert mikið annað sem við getum gert. Það eru ekki til nein lyf við þessu.“

Spurður hvort vænlegra sé að Íslendingar sleppi ferðalögum til Kína og jafnvel Asíu á meðan orsök og eðli veirunnar eru ókunn segir Þórólfur:

„Fólk verður bara sjálft að gera það upp við sig en opinberar tillögur þar að lútandi liggja ekki fyrir þannig að við erum ekki að hvetja fólk til þess að fara ekki akkúrat á þessa staði eða til Kína eða eitthvað slíkt.“

Leiðbeiningar af vef Landlæknis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert