Jeppabifreið sökk ofan í krapapytt

Frá björgunaraðgerðum í gærkvöldi.
Frá björgunaraðgerðum í gærkvöldi. Ljósmynd/Magnús Kristjánsson

Jeppabifreið af gerðinni Dodge lenti í 2-3 metra djúpum krapapytti á föstudaginn á Sigölduleið nærri Hnausapolli á Fjallabaki. Farið var í gær til þess að ná bifreiðinni upp úr pyttinum og tókst það að lokum um miðnætti í gærkvöldi.

Magnús Kristjánsson var einn þeirra sem fór á vettvang til þess að freista þess að ná bifreiðinni upp úr krapapyttinum en hann vakti athygli á málinu í morgun á Facebook með það fyrir augum að vara aðra ferðalanga við sömu örlögum.

„Það er einhver laut þarna í landslaginu sem nær að stíflast á veturna og fyllist af vatni. Á sumrin er þetta bara þurrt og smá pollur kannski. Menn eru svo bara að aka veginn eftir GPS-tækinu eða stikuðum vegi og vita ekki hvað er fram undan.“

Ljósmynd/Magnús Kristjánsson

Magnús segir að ökumaður bifreiðarinnar hafa verið vel útbúinn í ferðalag upp á hálendið. Það hafi ekki verið vandamálið. Hins vegar sé erfitt að varast slíka pytti. Þetta sjáist ekki á yfirborðinu fyrr en menn séu hreinlega lentir ofan í því.

„Menn eru bara að keyra á fínu harðfenni þarna og vita síðan ekki fyrr en ísinn gefur sig.“ Tvær bifreiðar fóru niður í krapapoll í mars í fyrra og segir Magnús að um sé að ræða nákvæmlega sama staðinn en hann tók einnig þátt í björgun þeirra.

Magnús bendir á hægt sé að fara hjáleið sem vanir jeppamenn þekki og gangi undir nafninu Krapaleiðin. Þá haldi menn sig í fjallshlíðunum í kring til þess að sleppa við krapann. Segir hann ástæðu til að hvetja fólk til að nota hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert