Segir íbúa þvingaða til að keyra göngin

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps segir að verið sé að þvinga íbúa til …
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps segir að verið sé að þvinga íbúa til að keyra Vaðlaheiðargöngin. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps mótmælir skertri vetrarþjónustu á Víkurskarði, en þjónustan var lækkuð um flokk í byrjun vetrar. Með þessu sé Vegagerðin að þvinga íbúa til að fara í gjaldtöku í Vaðlaheiðargöngunum.

Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá því á miðvikudag.

Þar segir að í mildu veðri þar sem ekki sé mikil ofankoma og vindur verði þjónusta á veginum virka daga frá hálfsjö að morgni til átta að kvöldi. 

Vaðlaheiðargöng.
Vaðlaheiðargöng.

Þegar færð spillist og mikil snjósöfnun verður á vegum áskilur Vegagerðin sér rétt til að skerða þjónustu um Víkurskarð og vegurinn er þá ekki opnaður aftur fyrr en skilyrðin batna. 

„Opnun á Víkurskarði nýtur ekki forgangs þannig að ef mikið álag er í snjómokstri þá ganga aðrar leiðir fyrir og opnun fer fram um leið og allar aðalleiðir eru orðnar færar,“ segir í lýsingu vegna vetrarþjónustu um Víkurskarð.

Þessu mótmælir sveitarstjórn Skútustaðahrepps. Í bókun kemur fram að Vaðlaheiðargöng séu mikil samgöngubót en því hafi verið haldið fram að þjónusta í Víkurskarði yrði ekki skert með tilkomu ganganna.

Ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélögin við skerðingu á þjónustu í Víkurskarði. 

Með þjónustuskerðingunni er Vegagerðin að þvinga íbúa til þess að fara í gjaldtöku í göngunum og er þetta eina svæðið á landinu sem býr við slíkar aðstæður. Þessu er mótmælt harðlega og farið fram á að þjónusta í Víkurskarði verði færð aftur í þjónustuflokk 2," kemur fram í bókun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert