Skyggni lélegt og erfið akstursskilyrði

Búast má við vindi 15 til 25 m/s, víðast hvar …
Búast má við vindi 15 til 25 m/s, víðast hvar með snjókomu, slyddu eða skafrenningi. Kort/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun gekk í gildi á Suður- og Suðausturlandi klukkan tíu í kvöld vegna austanhríðar, en á miðnætti og klukkan eitt í nótt ganga í gildi viðvaranir víðar á landinu: í Faxaflóa, Breiðafirði, á Vestfjörðum og á miðhálendinu.

Búast má við vindi 15 til 25 m/s, víðast hvar með snjókomu, slyddu eða skafrenningi og alls staðar verður takmarkað, lélegt eða mjög lélegt skyggni og erfið akstursskilyrði.

Austan- og norðaustanhvassviðri eða -stormur með snjókomu eða éljum um landið sunnan- og vestanvert í nótt. Dregur úr vindi sunnan til í fyrramálið, en áfram hvasst norðvestan til fram á kvöld. Sjá viðvaranir,“ segir í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

mbl.is