Kannast ekki við að hafa réttarstöðu sakbornings

Haukur Herbertsson segir fyrirtækið nú bíða eftir niðurstöðum lögreglu vegna …
Haukur Herbertsson segir fyrirtækið nú bíða eftir niðurstöðum lögreglu vegna rannsóknar málsins. mbl.is/Árni Sæberg

Haukur Herbertsson, rekstrarstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland, segist í samtali við mbl.is ekki vera með réttastöðu sakbornings vegna rannsóknar lögreglu á vélsleðaferð fyrirtækisins í janúar. Fram kom í fréttum í gær að tveir einstaklingar, rekstraraðili og starfsmaður, væru með réttarstöðu sakbornings í málinu. Rannsóknin væri á lokametrunum og málið yrði bráðlega sent ákærusviði.

Haukur kannast ekki við að neinn innan fyrirtækisins sem gæti verið skilgreindur sem rekstraraðili hafi réttarstöðu sakbornings. Hins vegar veit hann til þess að tveir starfsmenn hafi verið boðaðir í skýrslutöku á þeim forsendum. 39 manns voru í umræddri vélsleðaferð á Lang­jök­ul sem endaði með því að björg­un­ar­sveit­ir þurftu að sækja fólkið.

„Eftir því sem ég best veit er enginn rekstaraðili með réttarstöðu sakbornings. Ég hef ekki verið boðaður í skýrslutöku, ekki framkvæmdastjórinn og ekki stjórnarformaðurinn heldur,“ segir Haukur. „Ég er bara mjög hissa á þessari frétt. Það er raunverulega ekkert nýtt að frétta í þessu máli,“ bætir hann við.

Nokkrir starfsmenn fyrirtækisins hafa verið boðaðir í skýrslutöku vegna málsins, en hann sjálfur hefur einungis átt samskipti við lögregluna í gegnum tölvupóst og hefur sent þeim ýmis gögn.

Voru ekki sakaðir um neitt

„Þegar tveir starfsmenn hjá mér fengu boðunina þá var þeim tilkynnt að þeir hefðu réttarstöðu sakbornings í skýrslutökunni og mættu þar af leiðandi taka með sér lögmann.“

Haukur segir þessa einstaklinga þó ekki hafa verið sakaða um neitt heldur hafi skýrslutakan einungis verið á þessu formi. En Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, tók það fram í samtali við mbl.is í gær að þetta þýddi ekki endilega að einhver hefði augljóslega brotið af sér. Hann benti á að sam­kvæmt lög­um um meðferð saka­mála væri lög­reglu skylt að rann­saka slys og aðrar ófar­ir þótt ekki lægi fyr­ir grun­ur um refsi­verða hátt­semi. Síðan væri spurn­ing um það hvort stofnað hafi verið til hættu sem væri ófor­svar­an­leg en það væri hvorki tíma­bært né viðeig­andi að tjá sig um það að svo stöddu.

Haukur segir rannsókn málsins ekki hafa haft nein áhrif á fyrirtækið. „Af þeim samskiptum sem við höfum átt við lögregluna þá eru þeir bara að skoða þetta mál. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er verið að rannsaka þetta sem slys. Við bíðum eftir niðurstöðu frá lögreglunni þess vegna er ég mjög hissa á fréttaflutningi á þessum tímapunkti þegar ekkert er að gerast. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert