„Héldu að dómsdagur væri upp runninn“

Yusuf starfaði sem kennari í Tyrklandi en þurfti að flýja …
Yusuf starfaði sem kennari í Tyrklandi en þurfti að flýja heimalandið vegna afskipta Erdoğans, forseta Tyrklands. Yusuf valdi Ísland og fékk hér stöðu flóttamanns. Hann hefur dvalið hér í tvö og hálft ár og starfar nú sem rútubílstjóri.

Jarðskjálfti og dauðsföll ársins 1999 rifjast nú upp fyrir Tyrkjum á svipaðan hátt og snjóflóð og dauðsföll ársins 1995 rifjuðust upp fyrir Vestfirðingum þegar snjóflóð féll í byggð á Flateyri fyrr í janúar. 

Þetta segir Yusuf Sert, flóttamaður frá Tyrklandi sem býr á Íslandi. Hann er frá borginni Elazığ sem jarðskjálfti skók í gærkvöldi. Að minnsta kosti 21 er látinn og talið er að tala látinna gæti verið mun hærri. Meira en 1.000 manns særðust í jarðskjálftanum. 

Börn Yusuf, móðir hans, fyrrverandi eiginkona og fjöldi annarra ættingja og vina eiga heima í borginni og segir Yusuf að það sé erfitt að vera svo fjarri þeim þegar hörmungar sem þessar ganga yfir. 

„Sem betur fer voru börnin mín ekki í Elazığ heldur í höfuðborginni vegna frís í skólanum,“ segir Yusuf.

Mælst er til þess að fólk fari ekki inn á …
Mælst er til þess að fólk fari ekki inn á heimili sín og þurfa því margir að dvelja í bílum sínum, utandyra, í moskum eða skýlum. AFP

Dvelja úti í tíu stiga frosti

„Ég hringdi í frænda minn og systur mína fyrr í dag. Þau eru á svæðinu en hrædd við að fara inn á heimili sín. Þau verða að dvelja utandyra en það er mjög kalt, það var tíu stiga frost í gærnótt. Moskur voru opnaðar og skýli en þau eru ekki fullkomlega örugg. Margir hafa valið að halda sig frekar í bílum sínum.“

Yusuf segir að þótt opinberlega hafi stjórnvöld sagt að einungis 20 hafi týnt lífi sé talið að fleiri en 100 hafi látist. Næsta mánuðinn er búist við öðrum stórum skjálfta.

„Hús barnanna minna og fyrrverandi eiginkonu er skemmt en við vitum ekki hversu mikið. Kannski þurfa þau að flytja, kannski þurfa þau að dvelja í höfuðborginni næsta hálfa árið vegna þessa, við vitum það ekki alveg strax.“

Gríðarlegt eignatjón varð í jarðskjálftanum sem skók Elazığ í gærkvöldi.
Gríðarlegt eignatjón varð í jarðskjálftanum sem skók Elazığ í gærkvöldi. AFP

13.000 létust í jarðskjálfta árið 1999

Árið 1999 varð stór jarðskjálfti í Tyrklandi og fleiri en 13.000 létust. Yusuf segir að margir Tyrkir sem upplifðu þær hörmungar séu nú að rifja upp hið mikla áfall sem þeir fengu þá. Hann bendir á að það sé líklega svipað því sem Vestfirðingar, og fleiri Íslendingar, gengu í gegnum fyrir um tveimur vikum þegar stór snjóflóð féllu í byggð á Flateyri.

Ekkert manntjón varð í þeim snjóflóðum en ung stúlka grófst undir þeim og var í kjölfarið bjargað. Árið 1995 féll stórt snjóflóð á Flateyri og týndu þá 20 manns lífi. Í kjölfar seinna snjóflóðsins sögðu ýmsir að gamlar og erfiðar minningar af flóðinu 1995 hefðu rifjast upp þegar snjóflóðin féllu nú í janúar.

„Þegar eitthvað svona gerist aftur þá manstu eftir þessum skelfilega degi í fortíðinni,“ segir Yusuf.

Björgunarsveitirnar á svæðinu eru mjög öflugar, að sögn Yusuf.
Björgunarsveitirnar á svæðinu eru mjög öflugar, að sögn Yusuf. AFP

Héldu að borgin hefði hrunið til grunna

Þrátt fyrir mannfall og mikið eignatjón segir Yusuf að ættingjar hans séu þakklátir fyrir að skemmdirnar séu ekki jafn miklar og þeir bjuggust við. 

„Þau fundu fyrir jarðskjálftanum og miðað við það hvað hann var sterkur héldu þau að öll borgin hefði hrunið til grunna. Sumir héldu að dómsdagur væri upp runninn.“

Yusuf segir að björgunarsveitirnar á svæðinu séu virkilega öflugar og hafi komið fjölda fólks til bjargar. Því vanti ekkert upp á björgunaraðgerðir, helsta vandamál íbúa sé nú að fá húsaskjól og vistir. 

„Erfitt að sjá hana öskra á leiðinni í sjúkrabílinn“

Í myndbandinu sem má sjá hér að ofan sést hvar eldri konu, sem er fjölskylduvinur Yusuf, er bjargað. Hann segir að það hafi verið sérstaklega erfitt að vera svo langt frá heimabænum og geta ekki hjálpað til þegar hann sá myndbandið. 

„Ég man eftir konunni úr myndbandinu frá því að ég var lítill strákur. Hún er fjölskylduvinur og ég borðaði stundum heima hjá henni. Það er erfitt að sjá hana öskra á leiðinni í sjúkrabílinn þegar þeir eru að bjarga henni. Ég er svo langt í burtu að ég get ekki farið þangað svo það er virkilega erfitt.“

Yusuf, sem er bæði Tyrki og Kúrdi, starfaði sem kennari í Tyrklandi en þurfti að flýja vegna afskipta Recep Tayyip Erdoğans, forseta Tyrklands. Sá hinn sami hafði fangelsað fjölda vina Yusuf. Hann ákvað því að flýja vegna pólitískra skoðana sinna. Yusuf valdi Ísland og fékk hér stöðu flóttamanns. Hann hefur dvalið hér í tvö og hálft ár og starfar nú sem rútubílstjóri.

mbl.is