Andaði djúpt og rólega til að spara súrefnið

„Ég horfi bara á það fara í gegnum rúðurnar,“ segir Anna Sigríður Sigurðardóttir, móðir Ölmu Sóleyjar Ericsdóttur Wolf, fjórtán ára gömlu stúlkunnar sem bjargað var úr snjóflóðinu á Flateyri á þriðjudagskvöld. Mæðgurnar settust niður með mbl.is á Ísafirði síðdegis í dag og ræddu atburðarásina þetta kvöld.

Alma Sóley var grafin undir snjófargi í herbergi sínu í um það bil fjörutíu mínútur þar til björgunarsveitarmenn náðu til hennar. Í dag, minna en tveimur sólarhringum eftir flóðið, er hún stálslegin að sjá bæði á líkama og sál og segist helst sakna þess að fá símann sinn og aðra persónulega muni í hendur.

Anna Sigríður segir að hún hafi verið nýbúin að kyssa Ölmu góða nótt þegar flóðið skall á heimili þeirra við Ólafstún eftir að hafa frussast yfir snjóflóðavarnargarðinn. Alma sjálf segist hafa verið nýbúin að segja góða nótt vini sína á netinu. Litlu munaði að Anna sjálf lenti líka í flóðinu, en hún stóð með bakið upp við burðarvegg í húsinu sem skýldi henni fyrir skvettunum sem brutu glugga í herbergi Ölmu og stofu hússins, sem snýr upp að hlíðinni.

Það er erfitt að merkja það á Ölmu Sóleyju Ericsdóttur …
Það er erfitt að merkja það á Ölmu Sóleyju Ericsdóttur Wolf að hér fari stúlka á fimmtánda ári sem hafi legið grafin undir snjófargi í herbergi sínu í meira en hálfa klukkustund fyrir minna en 48 klukkustundum. Móðir hennar segist þakklát fyrir þær séu báðar hér enn og knúsaði alla björgunarsveitarmennina fyrir lífbjörgina. mbl.is/Hallur Már

Alma segir að hún muni ekki eftir högginu sem hlýtur að hafa orðið þegar flóðið braust inn um gluggann á herberginu hennar. „Ég hef örugglega fengið högg á hausinn eða eitthvað,“ segir Alma, en hún man síðan eftir því að hafa verið með meðvitund í nokkrar mínútur, undir dúnsænginni sinni, sem hélt á henni hita, þótt vissulega hafi henni verið orðið kalt.

Hún segir að hún hafi strax hugsað um að anda djúpt og rólega, til þess að spara súrefni. Síðan telur Alma að hún hafi misst meðvitund, þar sem hún man ekki eftir því að hafa verið grafin upp úr snjónum. Hún segist einmitt hafa hugsað um það, grafin í snjónum, að það væri gott ef hún myndi sofna, þar sem í svefni noti líkaminn einungis það súrefni sem nauðsynlega þarf. Einnig hafði hún miklar áhyggjur af móður sinni og systkinum og því að hún hefði ekki verið sú eina sem grófst í flóðinu.

Man eftir sér á sjúkrabörunum

„Ég man eftir því að vera komin á börurnar og þegar verið var að taka mig út í bíl,“ segir Alma Sóley, en björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri var snögg á staðinn, hitt snjóflóðið hafði fallið á höfnina örskömmu áður og voru björgunarsveitarmenn því búnir að græja sig í gallana.

„Þetta tók nú ekki langan tíma frá því að hún lendir í flóðinu og þangað til þeir koma,“ segir Anna, sem segist strax hafa áttað sig á það væri óvinnandi vegur fyrir hana að ætla sér að reyna að grafa dóttur sína upp úr flóðinu með höndunum.

Alma segir að hún muni ekki eftir högginu sem hlýtur …
Alma segir að hún muni ekki eftir högginu sem hlýtur að hafa orðið þegar flóðið braust inn um gluggann á herberginu hennar. „Ég hef örugglega fengið högg á hausinn eða eitthvað,“ segir Alma, en hún man síðan eftir því að hafa verið með meðvitund í nokkrar mínútur, undir dúnsænginni sinni, sem hélt á henni hita, þótt vissulega hafi henni verið orðið kalt. mbl.is/Önundur Pálsson


Tvö yngri börn Önnu, níu og fimm ára, voru í herbergjum sínum og þangað inn náði flóðið ekki. Hún fylgdi þeim út um glugga í húsinu og fengu þau þrjú skjól úti í bíl á meðan björgunarsveitarmenn athöfnuðu sig við að bjarga Ölmu.

Þegar búið var að ná Ölmu upp úr snjónum var strax rokið með hana í sundlaugina á Flateyri, þar sem hún var vafin inn í handklæði og hárblásari notaður til þess að koma í hana hita. Hún segir að henni hafi fljótlega byrjað að leiðast.

„Eftir þennan hálftíma, þar sem allir voru yfir mér, var mér bara byrjað að leiðast. Ég var bara að stara á klukkuna,“ segir Alma og bætir við að hún hafi líka verið að hugsa um hvar síminn hennar væri.

Mæðgurnar voru fluttar með varðskipinu Þór til Ísafjarðar um nóttina og hafa verið þar síðan og segjast hafa það gott, Alma náði að hvíla sig vel á sjúkrahúsinu á Ísafirði, þaðan sem hún útskrifaðist í gærkvöldi. Þegar mbl.is ræddi við þær voru mæðgurnar að velta því fyrir sér að fá far til Flateyrar með þyrlu Landhelgisgæslunnar, en ákváðu síðan að láta það bíða til morguns og fara þá akandi, en Flateyrarvegur er enn lokaður.

Þakklátar en framtíðin ögn óljós

Á Flateyri er fjölskyldan komin með nýjan samastað tímabundið, en þar hafa þau verið í rúmlega eitt og hálft ár. Anna Sigríður er kennslustjóri við Lýðháskólann á Flateyri og fluttist fjölskyldan í þorpið vegna vinnunnar. Hún segist efast um að einhver muni nokkurn tímann búa aftur í húsinu sem þær leigðu.

Á Flateyrarvegi í dag.
Á Flateyrarvegi í dag. mbl.is/RAX

„Við erum bara þakklátar fyrir að vera hér í dag og að björgunarsveitin hafi bjargað lífi hennar,“ segir Anna Sigríður, sem segist hafa knúsað alla björgunarsveitarmennina fyrir lífsbjörgina. „Ég vona að ég hafi ekki gleymt neinum,“ segir hún og hlær.

„Það verður gott líka að komast yfir og hitta fólkið og svona, ég veit að það eru margir sem eru að hugsa til okkar og eru að upplifa alls konar tilfinningar,“ segir Anna og bætir við að flóðin snerti fleiri en bara þeirra fjölskyldu, þar sem margir á Flateyri hafi upplifað hörmungaflóðið úr Skollahvilft fyrir 25 árum, sem banaði 20 manns.

Hugsar meira um þá sem eiga erfitt en sjálfa sig

Alma er sammála því og segist hugsa mikið til þeirra sem hafi verið að upplifa erfiðar tilfinningar síðustu sólarhringa. „Þau eru örugglega að fá aftur sjokk eftir 25 ár og hugsanir mínar eru frekar hjá þeim heldur en sjálfri mér,“ segir Alma, sem tekur atburðum þriðjudagskvöldsins með ótrúlegri ró.

„Ef að hún ætti þrjú börn og væri minni stöðu væri hún örugglega ekki svona stóísk,“ segir móðir hennar og hlær.

Alma Sóley segir að hún hlakki til að byrja aftur í skólanum á Flateyri, en móðir hennar segist ekki enn vera búin að átta sig á, eða hugsa það til enda, hvaða stefnu líf þeirra muni taka eftir þessa lífsreynslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina