Atvinnuleysi aukist minna en ætla mátti

Að störfum við byggingarframkvæmdir.
Að störfum við byggingarframkvæmdir. mbl.is/Golli

Áætlað er að um 201 þúsund manns hafi verið á vinnumarkaði í desember 2019, sem jafngildir 81% atvinnuþátttöku, samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar.

Af þeim voru um 201 þúsund starfandi og 6.700 atvinnulausir. Starfandi fólki fjölgaði að meðaltali um 2.600 manns á milli áranna 2018 og 2019 eða um 1,3%. Þetta er mun minna en fjölgunin árið á undan þegar hún var 2,3%.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Hagstofunnar.

Meðalatvinnuleysi á árinu 2019 var 3,6%, bæði samkvæmt mælingum Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar. Á undanförnum árum hefur atvinnuleysi samkvæmt úrtakskönnun Hagstofunnar yfirleitt verið meira en skráð atvinnuleysi. Þessi munur hefur heldur minnkað á síðustu árum og var enginn á síðasta ári.

Síðustu fimm ár hafa tölur Hagstofunnar sýnt að meðaltali 3,2% atvinnuleysi á meðan tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi sýna 2,7%. Tölur Hagstofunnar voru hærri öll árin.

Þróunin hægari en reiknað var með 

„Skráð atvinnuleysi hefur aukist stöðugt á seinni hluta ársins, sem er í góðu samræmi við umræðuna í samfélaginu. Niðurstöður Hagstofunnar sýna hins vegar að atvinnuleysi hafi verið nokkuð stöðugt síðustu fjóra mánuði ársins. Tölur Hagstofunnar sveiflast jafnan mikið á milli mánaða þannig að síðustu tölur þaðan eru frekar óvenjulegar miðað við tölur síðustu ára. Hugsanlegt er að þróunin í átt til minni atvinnu komi jafnframt fram í tölum um minnkandi atvinnuþátttöku,“ segir í Hagsjánni.

„Snemma á árinu 2019 var reiknað með að atvinnuleysi myndi aukast töluvert eftir því sem liði á árið og að staða á vinnumarkaði myndi versna. Þróunin hefur sem betur fer verið hægari en reiknað var með. Skráð atvinnuleysi hefur að vísu aukist um rúmt eitt og hálft prósentustig frá síðustu mánuðum ársins 2018, en atvinnuleysi samkvæmt tölum Hagstofunnar var ekki mikið meira í lok ársins 2019 og var á sama tíma 2018.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert