„John var alveg tilbúinn að halda áfram“

John Snorri ætlaði að verða fyrstur manna til að klífa …
John Snorri ætlaði að verða fyrstur manna til að klífa K2 að vetrarlagi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„John var alveg tilbúinn að halda áfram, hann fann alveg að hann var ekki búinn.“

Þetta segir Lína Móey Björnsdóttir, eiginkona Johns Snorra Sigurjónssonar, í samtali við mbl.is. John Snorri tilkynnti í gær að föruneyti hans hefði hætt við að klífa K2, næststærsta fjall heims, en John Snorri ætlaði að verða fyrstur manna til að klífa fjallið að vetrarlagi.

Ákvörðunin um að snúa við var tekin vegna þess að fimm úr átta manna hópnum sem John Snorri var hluti af treystu sér ekki til þess að halda áfram. 

Lína Móey ásamt John Snorra og syni þeirra.
Lína Móey ásamt John Snorra og syni þeirra. K100

„Nepalarnir og Kínverjarnir hættu við, fimm af átta. Þeir fundu fyrir einhverjum veikindum og svo voru það einhverjar persónulegar ástæður,“ útskýrir Lína Móey.

Ísinn á fjallinu eins og öryggisgler

Því hafi verið óumflýjanlegt að hætta við förina. „Þeir þurfa að vera fleiri. Ísinn á fjallinu, eins og hann lýsti því fyrir mér, er eins og öryggisgler. Þú þarft að sparka fjórum til fimm sinnum með broddunum og exinni til að ná taki. Þeir verða fljótt mjög þreyttir og þurfa alltaf að vera að skipta út og vinna þetta saman. Þeir hefðu aldrei getað þetta þrír.

Ég er búin að heyra í honum. Þeir eru bara á leiðinni til Islamabad [höfuðborg Pakistan] og hann kemur heim eftir helgi. Þetta voru mikil vonbrigði fyrir hann að þurfa að hætta í ferðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert