Leikmenn EVE Online söfnuðu 14 milljónum vegna skógarelda í Ástralíu

Spilarar EVE Online söfnuðu tæpum 14 milljónum króna vegna skógarelda …
Spilarar EVE Online söfnuðu tæpum 14 milljónum króna vegna skógarelda í Ástralíu. Ljósmynd/Aðsend

Leikjafyrirtækið CCP fór af stað með söfnun meðal leikmanna EVE Online vegna skógarelda sem geisað hafa í Ástralíu. Söfnunin fór fram í leiknum sjálfum með gjaldmiðli leiksins, PLEX. Alls söfnuðust 13.440.318 krónur til styrktar fórnarlamba hamfaranna.

Rauði krossinn á Íslandi tekur við fjárhæðinni en hún mun nýtast Rauða krossinum í Ástralíu sem staðið hefur í ströngu undanfarna mánuði og munu halda áfram næstu ár, enda mikið uppbyggingarstarf fram undan. 

„Aðstæður á ýmsum svæðum í Ástralíu eru hrikalegar eftir skógarelda sem hafa geisað og heimsbyggðin hefur fylgst með,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi, að því er segir í tilkynningu. 

Á síðunni redcross.org.au/bushfirefunds má finna upplýsingar um það hvernig ástralski Rauði krossinn hyggst nýta það fjármagn sem borist hefur vegna hamfaranna.

Söfnunarátakið vakti athygli, ekki síst kaup Scott Manley á sjaldæfu geimskipi í leiknum sem seldist fyrir rúmar 4 milljónir króna eða 33.000 dollara. Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem Scott útskýrir hvað varð til þess að hann keypti skipið.

„Við vildum þakka þeim einstaklingum í samfélaginu sem hvöttu CCP til að endurvekja PLEX for GOOD til þess að aðstoða við hamfarirnar í Ástralíu, auk allra þeirra sem lögðu átakinu lið,“ er haft eftir Dan Crone, samfélagsstjóra EVE Online.

Spilarar EVE Online hafa áður látið gott af sér leiða með þessum hætti, m.a. með tæplega 14 milljóna króna framlagi til mannúðar- og hjálparstarfs í Nepal.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert