Fékk fyrstu verðlaun fyrir verkefni í skurðlæknisfræði

Erla Liu Ting Gunnarsdóttir, fyrir miðju, ásamt hinum verðlaunahöfum kvöldsins …
Erla Liu Ting Gunnarsdóttir, fyrir miðju, ásamt hinum verðlaunahöfum kvöldsins þeim Mary Rezk frá Sahlgrenska í Svíþjóð og Tua Gyldenholm frá Árósum í Danmörku. Ljósmynd/Torben Hoffman

„Ég er mjög þakklát fyrir að hafa haft svona góða leiðbeinendur,“ segir Erla Liu Ting Gunnarsdóttir læknanemi, mjög hógvær eftir að hafa unnið til fyrstu verðlauna á árlegu þingi SSRCTS, norrænu vísindaþingi hjartaskurðlækna, sem fór fram í Geilo í Noregi í gær.

Verðlaunin fékk hún fyrir verkefni sitt sem fjallar um algengi og áhættuþætti lengri gjörgæsludvalar eftir kransæðahjáveituaðgerðir. Verkefnið byggir í grunninn á BS-verkefni Erlu sem hún þróaði svo áfram ásamt leiðbeinendum sínum þeim Tómasi Guðbjartssyni, prófessor í hjarta- og lungnaskurðlækningum, og Martin Inga Sigurðssyni, prófessor og yfirlækni í svæfinga- og gjörgæslulækningum.

Reiknilíkan sem spáir fyrir um lengd gjörgæsludvalar

„Við komumst að því að 20% sjúklinga sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerð þurfa að dvelja lengur á gjörgæsludeild en eina nótt. Sjúklingar dvelja yfirleitt eina nótt á gjörgæslu eftir slíkar aðgerðir en sumir þurfa að dvelja lengur og það eru margir áhættuþættir sem hægt er að nota til að spá fyrir um lengri gjörgæsludvöl,“ útskýrir Erla og heldur áfram:

„Við notuðum þessa niðurstöðu til að búa til reiknivél sem er hægt að nota til að spá fyrir um hversu miklar líkur eru á að sjúklingurinn muni þurfa að dvelja lengur á gjörgæslu.“

Óvenjulegt að fjórða árs nemandi vinni til verðlauna

Verkefnið hitti heldur betur í mark á þinginu meðal annars í ljósi þess að skortur á gjörgæsluplássum er stór áskorun í sjúkrahúsrekstri í dag, ekki bara á Íslandi heldur öllum Norðurlöndunum og því mikilvægt að nýta öll þau pláss sem til eru með sem bestum hætti.

Erla viðurkennir að vera stolt af því að hafa hlotið verðlaunin þegar hún er spurð að því en lætur lítið á því bera. Það sem gerir árangurinn enn flottari er að hún er einungis á fjórða ári læknisfræðinnar af sex. Tómas segir í Facebook-færslu sinni að það sé óvenjulegt.

 Spennt fyrir skurðlækningum en á eftir að prófa margt

„Mér fannst þeir frábærir leiðbeinendur. Þeir voru mjög duglegir og áhugasamir að veita mér aðstoð þegar þurfti,“ segir Erla spurð að því hvernig hafi verið að vinna með reynsluboltunum Tómasi og Martin Inga.

Þrátt fyrir að hafa unnið og hlotið verðlaun fyrir verkefni sitt á sviði skurðlækninga er Erla ekki viss um hvort hún ætli að sérhæfa sig á því sviði að loknu sex ára grunnnámi. Hún segist eiga eftir að prófa fimmta og sjötta árs námskeiðin í skólanum og geti ekki ákveðið sig fyrr en að þeim loknum.

„Ég á eftir að prófa kúrsana á fimmta og sjötta ári þannig ég á eftir að prófa margt. Eftir það fæ ég meiri tilfinningu fyrir því hvað heillar mig en eins og er þá þykja mér skurðlækningar mjög spennandi,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert