Vill sekta fyrirtæki sem uppfylla ekki kynjakvóta

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist sammála því að taka eigi upp …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist sammála því að taka eigi upp viðurlög gegn brotum á lögum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðaði frekari aðgerðir í átt til aukins jafnréttis karla og kvenna í ræðu sinni á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands í Hörpu í dag. Hún sagðist vera sammála því að taka ætti upp viðurlög við brotum á lögum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, en frumvarp þess efnis liggur fyrir Alþingi og er fyrsti flutningsmaður þess samflokkskona Katrínar, Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Frumvarpið felur í sér að fyrirtæki geti verið beitt dagsektum, sem gætu verið á bilinu 10-100 þúsund krónur, uppfylli þau ekki lagaskilyrði um að hlutfall hvors kyns í stjórn þeirra sé ekki lægra en 40%. Dagsektum skal heimilt að beita þar til fyrirtækin eða félögin skila inn nýrri tilkynningu til hlutafélagaskrár um jafnara kynjahlutfall í stjórn.

Samkvæmt nýlegum fréttum er hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hér á landi einungis rúmlega 30%, þrátt fyrir að lög kveði á um hærra hlutfall og hafi gert það allt frá 2010. Einnig virðast lögin um kynjakvóta ekki hafa haft smitáhrif svokölluð, sem myndu felast í því að fleiri konur kæmu inn í framkvæmdastjórnir eða í æðstu stjórnunarstöður fyrirtækja.

„Við vitum öll að konur og karlar standa jafnfætis“

„Mér finnst að Alþingi eigi að samþykkja þetta frumvarp. Nú eða, ef það þarf einhverrar frekari skoðunar við, þá á Alþingi bara að fela ráðherra að flytja slíkt frumvarp. Ég trúi ekki öðru en að atvinnulífið fagni því,“ sagði forsætisráðherra, en fyrr á Viðskiptaþinginu hafði hver einn og einasti gestur, eða svo gott sem, staðið á fætur þegar Katrín Olga Jóhannesdóttir formaður Viðskiptaráðs hafði hafði beðið þá sem ætluðu að vera hluti af lausninni í jafnréttismálum að rísa úr sætum.

„Við vitum öll að konur og karlar standa jafnfætis. Það er mannauðssóun sem felst í því að ekki eru fleiri konur stjórnendur í íslensku atvinnulífi,“ sagði forsætisráðherra.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert