Engin smitáhrif af kynjakvóta á stjórnir

Engin kona gegnir forstjórastöðu í skráðu félagi á Íslandi, og …
Engin kona gegnir forstjórastöðu í skráðu félagi á Íslandi, og hefur ekki gert síðan 2016. Meirihluti forystukvenna í íslensku atvinnulífi telur að þörf sá á aðgerðum og jafnvel lagasetningu sem kveður á um að kynjakvóti verði settur á æðstu stjórnunarstöður. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Meirihluti forystukvenna í íslensku atvinnulífi telur að þörf sá á aðgerðum og jafnvel lagasetningu sem kveður á um að kynjakvóti verði settur á æðstu stjórnunarstöður, en stór hluti þeirra telur að engin smitáhrif hafi orðið af lagasetningu um kynjakvóta á stjórnir sem sett voru árið 2010.  

Þetta er meðal niðurstaðna könnunar sem Ásta Dís Óladóttir, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, gerði í tengslum við fræðigrein sína í tímaritinu Stjórnmál & stjórnsýsla, sem ber yfirskriftina: Er skortur á framboði eða er engin eftirspurn eftir konum í æðstu stjórnunarstöður?  

186 konur sem eru fyrirtækjaeigendur eða gegna stjórnunar- og áhrifastöðum hér á landi og sitja í stjórnum tóku þátt í könnuninni, sem gerð var í mars á þessu ári. Markmið greinarinnar er að skoða hvað veldur því að engin kona gegnir stöðu forstjóra í skráðu félagi á Íslandi og til hvaða ráðstafana er hægt að grípa til þess að auka hlutdeild þeirra í æðstu stjórnunarstöðum að mati kvenna sem eru í áhrifastöðum í íslensku samfélagi.

Ásta Dís Óladóttir, lektor í alþjóðaviðskiptum við Viðskiptafræðideild HÍ.
Ásta Dís Óladóttir, lektor í alþjóðaviðskiptum við Viðskiptafræðideild HÍ. Ljósmynd/Aðsend

Í greininni er vakin athygli á því að samkvæmt úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins fyrir árið 2018 hefur Íslendingum tekist að jafna 85% af því kynjabili sem hér hefur ríkt og er Ísland það land sem hefur náð hvað lengst á sviði jafnréttis. Þrátt fyrir það gegnir engin kona stöðu forstjóra í skráðu félagi árið 2019 og afar fáar konur eru í framkvæmdastjórnum. Ný úttekt fyrir árið 2019 kom út í vikunni og þar kemur fram að kynjabilið hefur jafnast enn frekar og trónir á toppnum ellefta árið í röð. Staðan er hins vegar óbreytt hvað varðar konur í stjórnunarstöðum. 

Kynjakvótalög verði sett á framkvæmdastjórnir

Tæpur áratugur er síðan kynjakvótalög á stjórnir voru sett hér á landi og mikil breyting hefur orðið á fjölda kvenna sem gegna stjórnarsetu í kjölfar lagasetningarinnar. Margir bundu vonir við að lagasetningin myndi hafa svokölluð smitáhrif, að konum í framkvæmdastjórnum og forstjórastöðum myndi fjölga, en sú hefur ekki verið raunin. Engin kona gegnir forstjórastöðu í skráðu félagi á Íslandi, og hefur ekki gert síðan 2016, og einungis 13% framkvæmdastjóra eða forstjóra í stórum fyrirtækjum á Íslandi eru konur. 

Kynjahlutfall í æðstu stjórnunarstöðum hefur vissulega batnað frá árinu 2000 …
Kynjahlutfall í æðstu stjórnunarstöðum hefur vissulega batnað frá árinu 2000 þegar aðeins 2% kvenna, sem reyndar þarf að ræða um í eintölu, þar sem aðeins 1 kona var framkvæmdastjóri í félagi með fleiri en 250 starfsmenn, en árið 2017 var hlutfallið komið í 13%. Grafík/Stjórnmál & stjórnsýsla/Hagstofan

Þetta er í fyrsta sinn sem fram kemur í rannsókn sem þessari að stór hópur kvenna vill láta setja kynjakvótalög á framkvæmdastjórnir fyrirtækja á Íslandi. Ástæðan er sú að þær telja að smitáhrif kynjakvótans sem settur var á stjórnir félaga hafi ekki orðið og því þurfi að grípa inn í með þessum hætti. 

Karlaveldi í kringum æðstu stjórnunarstöður

Meðal niðurstaða má nefna að konurnar telja ákveðið „karlaveldi“ sé til staðar í kringum æðstu stjórnunarstöður. Ástæðan sé ekki sú að skortur sé á hæfileikaríkum konum til að sinna starfi æðstu stjórnenda, en þar sem karlar væru í meirihluta þeirra sem taka ákvarðanir um ráðningu forstjóra þá væri möguleiki kvenna takmarkaður. 

Þá kom það skýrt fram hjá þátttakendum að öflugt tengslanet karla getur skýrt þetta að hluta þar sem tengslanet karla horfir síður til kvenna og þekkingar þeirra. Karlar fái því fleiri tækifæri, meiri reynslu og þjálfun yfir starfsævina sem veitir þeim ákveðið forskot. 

Langflestar konurnar nefndu kynjakvóta og tengslanet aðspurðar hvað þurfi að gerast svo konur öðlist brautargengi sem æðstu stjórnendur. Meirihluti kvennanna telur einnig að menningin og hugarfar þurfi að breytast, konur þurfi fleiri tækifæri og karlmenn að axla meiri ábyrgð á fjölskyldulífi.

Þörf á róttækum breytingum

Skiptar skoðanir voru um það hvort kynjakvótar væri lausnin svo jafna megi hlutfall kynjanna meðal æðstu stjórnenda íslenskra fyrirtækja. Þegar spurt var beint hvort setja ætti sérstakan kynjakvóta á stjórnunarstöður innan fyrirtækja hér á landi voru tæp 60% og rúmlega 40% andvígir. Nokkrar nefndu að innleiðing kynjakvóta væri ekki óska úrræði en að kynjakvóti væri eina leiðin „til að koma á hugarfarsbreytingu og gefa konum tækifæri“. 

Niðurstöður könnunarinnar má túlka sem ákall um aðgerðir, að mati Ástu Dísar og meðhöfunda hennar, Gylfa Dalmann Aðalsteinssonar, dósents við Viðskiptafræðideild HÍ og Þóru H. Christiansen, aðjúnkts við sömu deild. 

„Hér er um að ræða konur sem nú þegar eru í stjórnunar- og leiðtogastöðum, konur sem sitja í stjórnum félaga og konur sem eiga fyrirtæki á Íslandi. Breytinga er þörf, róttækra breytinga sem kalla meðal annars á kynjakvóta á framkvæmdastjórnir,“ segir í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK