Flúði lögreglu og hafnaði á tré

Lögreglumenn hugðust stöðva för bifreiðar í Breiðholti á tíunda tímanum í gærkvöldi, en ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum. Var bifreiðinni ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi, eftir göngustíg og síðan á tré við íbúðarhús.

Ökumaður og farþegi bifreiðarinnar náðu að hlaupa burt og var bifreiðin fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið. Málið er í rannsókn.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var um tvö innbrot í bifreiðar í gærkvöldi, annars vegar í Breiðholti á sjöunda tímanum og hins vegar í miðbænum á ellefta tímanum. Munir voru teknir úr bifreiðunum.

Á tólfta tímanum voru afskipti höfð af manni á veitingahúsi í miðbænum vegna fjársvika. Hann hafði fengið afgreiddar veitingar sem hann gat ekki greitt fyrir.

mbl.is