Lyfjaskortur ekki yfirvofandi á Íslandi

Kona ýtir áfram kerru með tveimur hundum í borginni Sjanghæ. …
Kona ýtir áfram kerru með tveimur hundum í borginni Sjanghæ. Að sjálfsögðu eru allir með andlitsgrímur vegna veirunnar. AFP

Neyðaráætlun Lyfjastofnunar hefur verið virkjuð vegna kórónuveirunnar COVID-19. Stofnunin hefur skoðað birgðastöðu lyfja í landinu í samráði við birgja og enn sem komið er bendir ekkert til þess að skortur á tilteknum lyfjum sé yfirvofandi vegna veirunnar.

Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn mbl.is vegna mögulegs lyfjaskorts hérlendis í tengslum við faraldurinn.

Stutt er síðan ríki í Evr­ópu, Banda­rík­in og Ind­land lýstu yfir að lyfja­skort­ur gæti verið yf­ir­vof­andi vegna kór­ónu­veirunn­ar COVID-19.

Ljósmynd/Lyfjastofnun

Megináhrif faraldurins einskorðast við Hubei-svæði í Kína þar sem tiltölulega lítil framleiðsla lyfja fyrir Evrópumarkað fer fram. Því telur Lyfjastofnun ekki líkur á því að lyfjaverð verði fyrir áhrifum vegna veirunnar hérlendis að óbreyttu.

Ekkert bendir til þess að lyfjaskortur sé yfirvofandi hérlendis vegna …
Ekkert bendir til þess að lyfjaskortur sé yfirvofandi hérlendis vegna veirunnar. mbl.is/Thinkstock.com

Víðtækar aðgerðir 

„Aðgerðir Lyfjastofnunar varðandi COVID-19-veiruna eru víðtækar og miðast að því að tryggja lyfjaöryggi í landinu eftir fremsta megni,“ segir í svari Lyfjastofnunar.

Greining hefur farið fram á því hversu stór hluti lyfja á markaði á Íslandi er með framleiðslustað að hluta eða öllu leyti í Kína og þá á þeim svæðum þar sem áhrifa veirunnar gætir mest.

Samstarf viðbragðsaðila hérlendis hefur jafnframt verið eflt. Lyfjastofnun á fulltrúa sem hafa setið fundi með fulltrúum frá sóttvarnalækni og almannavörnum. Innlent samstarf vegna málsins nær sömuleiðis til ráðuneyta. Víðtækt samstarf er á milli evrópskra lyfjastofnana undir hatti Lyfjastofnunar Evrópu (EMA).

Þar á Lyfjastofnun fulltrúa í ýmsum nefndum og sérfræðihópum. Einn þeirra snýr að lyfjaöryggi og lyfjaskorti og hefur hópurinn hist á reglulegum símafundum vegna veirunnar þar sem fylgst er með framvindu mála, skipst er á upplýsingum og aðgerðir samræmdar, að því er kemur fram í svarinu.

Samstarfið nær einnig til lyfjastofnana á Norðurlöndunum og er Lyfjastofnun í beinum samskiptum við fulltrúa þeirra til að tryggja lyfjaöryggi.

Hiti farþega mældur á lestarstöð í héraðinu Jiangsu í Kína.
Hiti farþega mældur á lestarstöð í héraðinu Jiangsu í Kína. AFP

Fylgist náið með framhaldinu 

Lyfjaframleiðsla á öðrum svæðum í Kína en Hubei hefur ekki orðið fyrir áhrifum veirunnar og heldur framleiðsla þar því áfram. Sömuleiðis er ekki gert ráð fyrir að veiran hafi áhrif á starfsleyfi neinna framleiðslustaða í Kína að svo stöddu.

„Eins og fram hefur komið er Lyfjastofnun í beinum og reglulegum samskiptum við aðrar lyfjastofnanir í Evrópu og innan þess samstarfs eru ákveðnar samskiptaleiðir sem varða lyfjaskort eingöngu. Lyfjastofnun fylgist því náið með framhaldinu,“ segir í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert