Reyndi að ræna úrsmið í Reykjanesbæ

Lögregla að störfum við verslunina í hádeginu. Einn maður var …
Lögregla að störfum við verslunina í hádeginu. Einn maður var færður burt í járnum. Ljósmynd/Víkurfréttir

Karlmaður var handtekinn í verslun úrsmiðsins Georgs V. Hannah í Reykjanesbæ í hádeginu í dag eftir að hafa reynt að ræna búðina. mbl.is hefur fengið að heyra af því frá sjónarvotti að maðurinn hafi verið vopnaður hamri, en það vill Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, þó ekki staðfesta.

Víkurfréttir greindu fyrst frá. Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum er að störfum á staðnum og segir lögreglustjórinn að rannsókn málsins sé á algjöru byrjunarstigi, lögregla sé að reyna að fá skýra mynd á atburðarásina.

Braut allt og bramlaði

Samkvæmt sjónarvotti sem sá þetta gerast var hringt strax á lögreglu og var maðurinn fastur inni í versluninni og braut þar allt og bramlaði þar til lögregla kom á staðinn og færði hann út í járnum.

Ólafur lögreglustjóri segir við mbl.is að maðurinn hafi látið ófriðlega inni í versluninni áður en lögregla kom á staðinn og eflaust valdið nokkru tjóni, enda margir brothættir og verðmætir hlutir í skartgripaverslunum.

Fram kemur á vef Víkurfrétta að farið hafi verið með þann handtekna beint á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert