Þæfingur, ófærð og snjóflóðahætta

Súðavíkurhlíð er lokuð vegna snjóflóðahættu.
Súðavíkurhlíð er lokuð vegna snjóflóðahættu. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Þæfingsfærð eða ófært á flestum leiðum á Vestfjörðum. Snjóþekja og skafrenningur er á Hálfdáni, Mikladal og Kleifaheiði. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Klettshálsi og beðið með mokstur vegna veðurs. Veginum milli Súðavíkur og Ísafjarðar var lokað af öryggisástæðum vegna snjóflóðahættu en til stóð að opna hann að nýju um hádegi. Vegir til Suðureyrar, Flateyrar og Þingeyrar hafa ekki verið opnaðir vegna ófærðar. Vegagerðin bíður með mokstur þar.

Þæfingsfærð er í Svínadal. Ófært er í Staðarsveit og á Útnesvegi. Hálka eða snjóþekja og skafrenningur eða éljagangur á flestum öðrum leiðum á Vesturlandi. Mjög mikið hvassviðri er á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Hvasst, snjókoma og blint á fjallvegum á norðvestanverðu landinu. Heldur hægari vindur í kvöld en bætir þá í ofankomu norðaustan til, segir í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Gular viðvaranir eru í gildi um norðanvert landið.

Á Norðurlandi er ófært á Siglufjarðarvegi og í Víkurskarði. Snjóþekja og snjókoma er á Öxnadalsheiði. Snjóþekja eða hálka og éljagangur eða skafrenningur er á öðrum leiðum. Vegirnir um Vatnsskarð og Þverárfjall eru lokaðir. Óvissustig er í Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðahættu. Hálka eða snjór er á flestum leiðum á Norðausturlandi og ófært er um Hólasand. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Vatnsskarði eystra og Fjarðarheiði. Flughálka er á nokkrum leiðum í kringum Egilsstaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert