Ungir jafnaðarmenn styðja kjarabaráttu láglaunafólks

„Um er að ræða fólk sem leggur sig allt fram …
„Um er að ræða fólk sem leggur sig allt fram í einhverjum mikilvægustu og um leið erfiðustu störfum okkar samfélags og þiggur lúsarlaun fyrir." mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ungir jafnaðarmenn lýsa yfir stuðningi við baráttu láglaunafólks fyrir bættum kjörum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Um er að ræða fólk sem leggur sig allt fram í einhverjum mikilvægustu og um leið erfiðustu störfum okkar samfélags og þiggur lúsarlaun fyrir. Fjöldi láglauna- og kvennastétta á enn ósamið og hvetur hreyfingin ríki og sveitarfélög til að semja hið fyrsta, enda hafa margar stéttir beðið allt of lengi eftir leiðréttingu á kjörum sínum.

Stór hluti þeirra sem nú berjast fyrir bættum kjörum tilheyra hefðbundnum kvennastéttum sem hafa í allt of langan tíma skrapað botn launastigans í íslensku samfélagi. Nú er tímabært að þessar stéttir fái leiðréttingu sinna kjara. Metum störf kvenna að verðleikum!

Erfiðleikar fólks á lægstu launum sýna einnig fram á nauðsyn þess að stjórnvöld ráðist í róttækar aðgerðir á húsnæðismarkaði. Það er óásættanlegt að láglaunafólk eigi ekki nóg til að lifa út mánuðinn vegna himinhás húsnæðiskostnaðar. Ríkisstjórnin verður að setja meiri kraft í uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis sem tryggir láglaunafólki öruggt, áreiðanlegt og ódýrt húsnæði. 

Ungir jafnaðarmenn standa alltaf með láglaunafólki og minna á kjörorð jafnaðarstefnunnar: frelsi - jafnrétti - samstaða,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert