Úr kakó og kleinum yfir í kerti

Athafnamaðurinn Róbert Frímann Stefánsson Spanó selur endurunnin kerti við Gróttu …
Athafnamaðurinn Róbert Frímann Stefánsson Spanó selur endurunnin kerti við Gróttu á Seltjarnarnesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bás þar sem boðin eru til sölu endurunnin kerti hefur vakið athygli vegfarenda við Gróttu á Seltjarnarnesi að undanförnu. Í fyrradag stóð þar vaktina hinn þrettán ára gamli Róbert Frímann Stefánsson. Hafði hann í nógu að snúast og mokaði út kertunum.

Róbert og eldri bróðir hans, Daníel, slógu í gegn með öðrum sölubás á sama stað fyrir tveimur árum. Þar seldu þeir „Cókó and Kleins“ og gáfu hluta ágóðans í þyrlusjóð Landhelgisgæslunnar. Bræðurnir hlutu mikið lof fyrir uppátæki sitt og var meðal annars boðið í flug með Landhelgisgæslunni.

Nú er komið að næsta kafla í viðskiptasögu bræðranna. Sá eldri er reyndar kominn í Versló og hefur ekki eins mikinn tíma aflögu og áður. Því var Róbert einn við sölubásinn og mátti hafa sig allan við að anna eftirspurn eftir Sealight – endurunnum kertum.

Samkvæmt upplýsingum frá föður drengjanna söfnuðu þeir miklu magni af skeljum þegar þeir voru í keppnisferðalagi í Stykkishólmi fyrir rúmu ári. Þeir fóru að gera tilraunir með að bræða niður gömul kerti og steypa í skeljarnar og þegar þeir komust yfir afgangskerti frá kaþólsku kirkjunni gat framleiðslan hafist fyrir alvöru. Sem fyrr er markmið bræðranna að safna fyrir nýrri þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka