Allt er til staðar í Mýrargarði

Eldhús og stofa. Öll heimilistæki eru til staðar og sömuleiðis …
Eldhús og stofa. Öll heimilistæki eru til staðar og sömuleiðis allt leirtau. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dag er merkisdagur í sögu Félagsstofnunar stúdenta. Þá verður tekinn formlega í notkun Mýrargarður í Vatnsmýrinni, stærsti stúdentagarður sem byggður hefur verið á Íslandi.

Athöfn verður í dag klukkan 17, þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri leggur lokahönd á Mýrargarð, eins og segir í boðskorti. Á laugardaginn verður svo opið hús klukkan 14-16, í tengslum við Háskóladaginn. Eru allir velkomnir.

Mýrargarður stendur við Sæmundargötu 21 í Vísindagarðahverfinu í Vatnsmýri. Þegar húsið hefur verið tekið í notkun að fullu munu búa þarna tæplega 300 manns, sem er mesti fjöldi í einu húsnúmeri á landinu. Í íbúðunum er allt til alls, svo sem húsgögn, eldhúsáhöld og leirtau. Leigjendurnir þurfa bara að koma með sængurföt og tannbursta.

Mýrargarður er 14.700 fermetrar að stærð á fimm hæðum með 244 leigueiningum fyrir tæplega 300 íbúa sem fyrr segir. Yrki arkitektar teiknuðu Mýrargarð og Ístak byggði húsið. Framkvæmdir hófust í október 2017.

Í húsinu er m.a. boðið upp á nýtt íbúðaform, þ.e. 10 herbergja íbúðaklasa með sameiginlegu rými. Að auki verður stór sameiginleg aðstaða fyrir alla íbúa hússins miðsvæðis á lóðinni. Stúdentagarðurinn er einungis fyrir barnlausa einstaklinga og pör og í fyrsta sinn verður boðið upp á að vinir geti deilt sameiginlegri aðstöðu. Tilgangurinn er að hvetja til aukins samneytis íbúa og vinna gegn félagslegri einangrun.

Paraíbúðirnar eru rúmlega 40 fermetrar og einstaklingsíbúðirnar um 30 fermetrar. sisi@mbl.is

Húsið er fimm hæðir og byggt í kringum skjólsælan garð. …
Húsið er fimm hæðir og byggt í kringum skjólsælan garð. Í honum miðjum er samkomusalurinn. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert