Sala á spritti tífaldast

Yfirvöld hafa mælst til þess að fólk hugi vel að …
Yfirvöld hafa mælst til þess að fólk hugi vel að handþvotti vegna veirunnar.

Tíföldun hefur orðið á sölu spritts á síðasta mánuði hjá Rekstrarvörum en bara á síðustu viku seldist jafn mikið spritt í almennri sölu og venjulega selst á þremur mánuðum. Fyrr í dag bárust fréttir af því að fyrsta smit kórónuveirunnar væri staðfest hérlendis.

Önnur sending af spritti er á leiðinni í hillur Rekstrarvara og eru birgðir af spritti tryggðar fyrir heilbrigðisstofnanir og aðrar grunnstoðir samfélagsins.

Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Rekstrarvara.
Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Rekstrarvara.

„Sala á spritti til einstaklinga er búin að aukast gríðarlega undanfarið, síðasta mánuðinn eða svo. Eftir að tilkynningin kom í dag um að fyrsta tilfelli veirunnar hefði greinst hér á landi fylltist búðin,“ segir Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Rekstrarvara.

Nóg er þó til af spritti fyrir heilbrigðisstofnanir og aðrar grunnstoðir samfélagsins, að sögn Einars en Rekstrarvörur tryggja að birgðir af spritti fyrir þær séu ávallt tiltækar. 

„Við pössum upp á að eiga vörur fyrir þá sem eru í fremstu víglínu, til dæmis heilsugæslu, spítala, dvalarheimili og Keflavíkurflugvöll. Skammtar fyrir fagaðila eru tryggðir en það er ekkert sem við setjum fram í verslun, við höldum lager af því.“

Einstaklingar þurfa þó ekki að örvænta en meira spritt er á leiðinni í Rekstrarvörur, sem selja meðal annars spritt áfram til apóteka. 

„Næsta sending kemur í gám á morgun og verður því komin í hillur á mánudaginn. Við byrjuðum að stækka lagerinn um miðjan janúar svo við erum löngu byrjuð að panta meira af spritti en venjulega,“ segir Einar.

mbl.is