„Andlega heilsan er góð á degi fjögur“

Fjölskyldan í vinnunni heima hjá sér í sóttkví.
Fjölskyldan í vinnunni heima hjá sér í sóttkví. Ljósmynd/Aðsend

„Andlega heilsan er góð á degi fjögur. Það er búið að fara í gegnum allar skúffur og skápa á heimilinu og ákveða að mála svefnherbergið. Það kemur sér líka mjög vel að vera með Netflix,“ segir Pétur Blöndal sem er í heimasóttkví vegna kórónuveirunnar. Hann kom til landsins frá Verona á Ítalíu síðasta laugardag eftir skíðafrí með eiginkonu og dóttur. 

Fjölskyldan er öll einkennalaus og kennir sér ekki meins og lætur almennt vel af sér heima. Þau halda rútínu og vinna heiman frá sér. „Við vöknum á morgnana og vinnum og dóttirin lærir heima,“ segir Pétur. Fjölskylda og vinir sjá til þess að þau svelti ekki. „Við erum ákaflega þakklát fyrir að eiga svona góða að. Þau eru dugleg að skilja mat eftir við hurðina, hringja bjöllunni og hlaupa í burtu,“ segir Pétur og hlær. Í dag pantaði hann í fyrsta skipti í matinn á netinu. 

Fjölskyldan tekur þessu létt og gægist út um bréfalúguna.
Fjölskyldan tekur þessu létt og gægist út um bréfalúguna. Ljósmynd/Aðsend

„Hálfgert fangaflug“

Sem fyrr segir kom fjölskyldan til landsins frá Ítalíu á laugardag og var mikill viðbúnaður á flugvellinum. Tveir farþegar voru teknir í sýnatöku við komuna. „Það var mjög vel að þessu staðið en þetta var ákaflega sérstök upplifun. Þetta minnti mann á hálfgert fangaflug,“ segir Pétur léttur í bragði.  

Fjölskyldan var og er enn einkennalaus. Ekki lá fyrir að þau ættu að fara í sóttkví við komuna heim en þau ákváðu að taka það rólega fyrst um sinn miðað við aðstæður og gerðu ýmsar ráðstafanir. Elsti sonurinn flutti af heimilinu til ömmu sinnar og afa áður en þau komu heim. Seinnipartinn daginn eftir eða á sunnudeginum fengu þau símhringingu frá embætti landlæknis sem óskaði eftir að þau héldu sig heima. Ef þau finna einhver einkenni hefur verið óskað eftir að þau hafi samband við lækna símleiðis.

Ekki á sama skíðasvæði 

Þeir Íslendingar sem smituðust af kórónuveirunni á Ítalíu voru ekki á sama skíðasvæði og fjölskyldan. Hins vegar greindist nýverið farþegi sem sat fyrir framan þau á leiðinni heim með veiruna. Pétur segir að þau hafi ekki orðið vör við nein veikindi farþega um borð í fluginu.  

Dóttirin á heimilinu Agnes Lív Pétursdóttir Blöndal á skíðum á …
Dóttirin á heimilinu Agnes Lív Pétursdóttir Blöndal á skíðum á Ítalíu. Hún missir af unglingameistaramóti Skíðasambands Íslands eftir rúma viku því hún er í heimasóttkví. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin, Pétur og Eyrún Einarsdóttir, hafa náð að sinna vinnunni vel að heiman. Pétur er sjálfur atvinnurekandi og er hann í góðu sambandi við starfsmenn sína í gegnum síma og net. Hann viðurkennir að þetta bitni líklega mest á 13 ára dóttur þeirra, Agnesi Lív Pétursdóttur Blöndal. Hún missir af hvoru tveggja fótboltamóti á Akureyri um helgina og unglingameistaramóti í skíðum helgina þar á eftir. 

Taka stóran sveig ef þau mæta fólki á göngu

Fjölskyldan má þó fara út úr húsi eins og til dæmis fara í bíltúr og í göngutúr en þarf að halda um tveggja metra fjarlægð frá öðrum. „Það eru fáir á ferli um miðjan dag þegar allir eru í vinnu. Við tökum bara stóran sveig ef við mætum fólki,“ segir hann.

Hann telur mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum embættis landlæknis um heimasóttkví. Hann viðurkennir að þetta eigi eflaust eftir að reyna á samband þeirra allra þriggja en „annaðhvort heldur þetta eða ekki. Það kemur í ljós eftir 10 daga“, segir hann og skellir upp úr.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert