Þrefað um gjöld af númerslausum bíl

Yfirskattanefnd fann að vinnubrögðum ríkisskattstjóra í málinu.
Yfirskattanefnd fann að vinnubrögðum ríkisskattstjóra í málinu. mbl.is/RAX

Margra ára málarekstri íþróttafélags nokkurs gegn skattayfirvöldum vegna álagningar bifreiðagjalds á ökutæki í þess eigu sem ekki var í notkun lauk á dögunum með því að yfirskattanefnd úrskurðaði félaginu að hluta til í vil og fann að vinnubrögðum ríkisskattstjóra í málinu.

Greint er frá málavöxtum og niðurstöðunni á vef yfirskattanefndar, en ekki kemur fram um hvaða félag er að ræða.

Það var í janúar árið 2013 sem íþróttafélagið tilkynnti lögreglu að skráningarmerkjum hefði verið stolið af bifreið félagsins árið 2012. Félagið hafði fest kaup á henni tíu ára gamalli sumarið 2010. Það var svo sumarið 2014 sem félagið óskaði eftir því við ríkisskattstjóra að bifreiðagjald yrði fellt niður þar sem bifreiðin væri ekki í notkun. Nokkru síðar pantaði félagið nýja númeraplötu á bifreiðina til að leggja inn hjá Samgöngustofu, þar sem ekki er hægt að afskrá bifreiðar nema skráningarnúmer þeirra séu lögð inn. Ríkisskattstjóri synjaði erindinu á þeim grundvelli að ekki væri heimilt að fella niður bifreiðagjald nema skráningarnúmer hefðu verið lögð inn eða sýnt fram á að bifreiðin væri ónýt og sannanlega ekki í notkun á gjaldatímabilinu.

Erindinu synjað fimm sinnum

Þegar málið kom á borð yfirskattanefndar í ágúst 2019 lágu fyrir gögn sem sýndu að bifreið íþróttafélagsins var ekki á númerum og ótryggð. Þá hafði félagið a.m.k. fimm sinnum á undanförnum árum óskað eftir því við ríkisskattstjóra að bifreiðagjaldið yrði fellt niður en ávallt verið synjað án þess að leiðbeint væri um kæruheimild.

Yfirskattanefnd fann að því að félagið hefði í erindum sínum ekki tilgreint með skýrum hætti þau greiðslutímabil sem málaleitanir þess tóku til, en ríkisskattstjóri hafði litið svo á að öll erindin litu að niðurfellingu bifreiðagjalds fyrir árið 2011. Ný skráningarmerki fyrir bifreiðina höfðu verið tilbúin frá því í janúar 2015. Féllst yfirskattanefnd á niðurfellingu bifreiðagjalds fyrir árið 2015 og fyrri hluta árs 2016, en taldi að ekki væri lagaheimild fyrir niðurfellingu eldri gjalda frá 2012 til 2014. gudmundur@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert