Ákærður fyrir 114 milljóna skattabrot tengd starfsmannaleigu

Héraðssaksóknari ákærir í málinu.
Héraðssaksóknari ákærir í málinu. mbl.is/Hjörtur

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir meiri háttar skattalagabrot og peningaþvætti með því að hafa sem stjórnandi og eigandi starfsmannaleigu komið sér undan því að greiða samtals 87 milljónir í skatta á árinu 2017. Þá er hann ákærður fyrir að hafa sjálfur ekki staðið skil á 27,5 milljónum í tekjuskatt. Samtals nema því meint undanskot mannsins 114,5 milljónum.

Samkvæmt ákæru málsins stóð maðurinn, Ingimar Skúli Sævarsson, skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum fyrir félagið Verkleiguna frá mars til desember árið 2017 og komst þannig hjá því að skila ríkissjóði 57 milljónum króna í virðisaukaskatt.

Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslugreinum fyrir fyrirtækið og þannig komist hjá því að greiða staðgreiðslu opinberra gjalda upp á 30 milljónir frá október til desember þetta sama ár. Maðurinn er svo ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa ráðstafað peningunum sem voru ávinningur af fyrrnefndum brotum í þágu rekstrar félagsins.

Að lokum er hann ákærður fyrir brot gegn skattalögum og lögum um bókhald með því að hafa á árunum 2014-2018 staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir sig. Vantaldi maðurinn á þessum árum tekjur frá sjálfstæðum atvinnurekstri um 101 milljón og möguleg rekstrargjöld um 30,5 milljónir og tekjur frá fyrrnefndu fyrirtæki um 7,3 milljónir árin 2017 og 2018. Með þessu vantaldi maðurinn tekjuskattstofn sinn um 66 milljónir og komst undan að greiða tekjuskatt og útsvar upp á 27,5 milljónir, að því er segir í ákæru málsins.

Málefni stafsmannaleigunnar hafa áður ratað á síður fjölmiðla, en eftir að félagið varð gjaldþrota árið 2018 stofnaði Ingimar starfsmannaleiguna Manngildi sem varð gjaldþrota seint á síðasta ári. Eftir gjaldþrot Verkleigunnar stofnuðu nokkrir starfsmenn hennar starfsmannaleiguna Menn í vinnu sem varð aðalumfjöllunarefni fréttaskýringaþáttar Kveiks um dökkar hliðar íslensks vinnumarkaðar 

Þá hafði Verkleigan áður verið sökuð um að hafa ekki staðið skil á launum, lífeyrissjóðsgreiðslum og fleiru, en lögmaður Ingimars sagði við RÚV á þeim tíma að málið snerist um stórfelldan fjárdrátt fyrrnefndra starfsmanna. Kærðu starfsmennirnir einnig meint brot Ingimars til skattrannsóknaryfirvalda. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er kæra Ingimars ekki til rannsóknar hjá héraðssaksóknara.

Ingimar var svo meðal þeirra sem handtekinn var í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar sem varðaði rannsókn á útgáfu á fölsuðum skilríkjum í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert