Deiliskipulag fyrir Hlemm samþykkt

Svona verður staðan á Hlemmi í framtíðinni á góðviðrisdögum.
Svona verður staðan á Hlemmi í framtíðinni á góðviðrisdögum. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Nýtt deiliskipulag fyrir Hlemmsvæðið var samþykkt 11. mars í skipulags- og samgönguráði en tillagan var sett í auglýsingu 16. desember. Tekið hefur verið tillit til athugasemda en þær snerust helst um aðgengi, bílastæði, umferðarflæði, vörulosun og sorphirðu, að því er kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Þar segir að Hlemmur verði tengipunktur almenningssamgangna, bæði borgarlínu og strætó, kjörinn fyrir gangandi og vettvangur ólíkra viðburða.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á grundvelli nýs deiliskipulags hefjist á þessu ári.

Aðgengi vistvænna ferðamáta og skilyrði til fjölbreytts mannlífs verða bætt verulega en nefna má að bílastæði við götukanta og í bílastæðahúsum í innan við fimm mínútna göngufjarlægð (400 m) frá Hlemmi eru alls um 3.150 talsins,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Meginmarkmið með nýju deiliskipulagi og með forhönnun svæðisins miðar að því að auka aðdráttarafl Hlemms sem staðar sem fólk sækist eftir að fara á, að skapa gott og vistvænt umhverfi og til að svæðið verði kjörstaður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Hlemmur verði góður staður fyrir fólk og viðburði, eftirsóttur bíllaus staður, grænn og lifandi en einnig byrjunarreitur fyrir þau sem ætla í bæinn.

Nánar má sjá um deiliskipulagið hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert